10 C
Selfoss

Fjallað um samstarfsverkefni Flóahrepps og Árborgar

Vinsælast

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps sem haldinn var 7. febrúar sl. var m.a. fjallað um samstarfsverkefni Flóahrepps og Árborgar. Lagt var fram erindi frá Árna Eiríkssyni, Margéti Jónsdóttur og Sigurbáru Rúnarsdóttur. Í fundargerð segir: „Í erindinu er lagt til, í ljósi jákvæðrar umræðu á fundi kjörinna fulltrúa þessara sveitarfélaga 1. febrúar. 2018, að sveitarfélögin Árborg og Flóahreppur skoði möguleika á frekara samstarfi sín á milli. Farið verði yfir þá samninga sem í gildi eru um samstarfið eins og það er í dag. Æskilegt er að við þá skoðun verði horft sérstaklega til velferðar- og lýðheilsumála með það að markmiði að tryggja sem best að aðgengi íbúa að þjónustu tengdri þeim málaflokkum verði sambærilegt í báðum sveitarfélögum.“

Samþykkt var með 5 atkvæðum að fela sveitarstjóra og oddvita að vinna málið áfram.

Svanhvít Hermannsdóttir og Rósa Matthíasdóttir bókuðu jafnframt eftirfarandi:
„Rósa Matthíasdóttir sat fyrir hönd T listans fund sem Sveitarfélagið Árborg boðaði til þann 1. febrúar s.l. Farið var yfir þau samstarfsverkefni sem sveitarfélögin Árborg og Flóahreppur eiga í. Það er skoðun fulltrúa T listans að áhugavert sé að skoða frekari eflingu samstarfs milli sveitarfélaganna og hvaða leiðir séu færar til þess, íbúunum til hagsbóta.“

Á fundi sveitarstjórnarinnar var einnig lagt fram erindi frá Sveitarfélaginu Árborg þar sem óskað er eftir því að mörk sveitarfélaganna verði færð í samræmi við meðfylgjandi gögn „Tillaga að breyttum sveitarfélagsmörkum milli Árborgar og Flóahrepps unnin af Betteríinu Arkitektum, dags 18.12.2017“ og voru afgreidd á fundi bæjarráðs Árborgar 11. janúar 2018. Um er að ræða 1,62 ha svæði innan sveitarfélagamarka Flóahrepps, sem Sveitarfélagið Árborg óskar eftir að verði hluti af íbúabyggð á Selfossi.

Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti með 5 atkvæðum að vísa erindinu til Skipulagsnefndar Uppsveita til umfjöllunar.

Nýjar fréttir