-5.2 C
Selfoss

Veitingastaðurinn Menam á tímamótum

Vinsælast

Þann 5. desember sl. voru tuttugu ár síðan veitingastaðurinn Menam var opnaður að Eyravegi 8 á Selfossi. Í grunnin er Menam thailenskur matsölustaður en hann hefur líka, allt frá upphafi, boðið upp á hefðbundnari „a la carte” rétti, m.a. kjöt og fiskmáltíðir. Núverandi eigandi staðarins er Kristín Árnadóttir en hún tók við rekstrinum 30. júlí 1999 um einu og hálfu ári eftir að Menam opnaði.

Matreiðslufólkið sem starfar á Menam eru bæði íslenskir og thailenskir en matreiðslumaðurinn Andri Már Jónsson, tengdasonur Kristínar, er yfirmatreiðslumaður. Hann hefur starfað á Menam með hléum frá 2003. Hann lærði matreiðslu á á Hótel Holti og hefur víðtæka reynslu bæði hérlendis og erlendis.

Endurbætur en sama hlýlega yfirbragðið
Við tímamótin hjá Menam ákvað Kristín að fara í nokkrar endurbætur á staðnum, m.a. til að koma betur til móts við nýja tíma. Farið var í að endurnýja gólfefni, innréttingar og fleira. Segja má því að staðurinn hafi tekið þó nokkrum útlitsbreytingum þó sama hlýlega yfirbragðið sé áfram. Kristín var spurð nánar út í þessar breytingar:

„Við ákváðum í tilefni 20 ára afmælisins, að hressa aðeins upp á útlit staðarins. Við lokuðum tímabundið á meðan á breytingunum stóð en höfum nú opnað aftur. Það stendur svo til í framahaldinu að taka matseðilinn til endurskoðunar, aðeins að breyta til . Ég á þó von á því að okkar tryggu viðskiptavinir geti þó áfram komið í „sína” rétti því við munum halda í þá matseld sem við erum búin að vera með – munum endurnýja en halda í það sem fólk hefur verið ánægt með. Við erum frekar íhaldssöm og viljum, þrátt fyrir breytingarnar, halda í hefðirnar og hafa í heiðri lykilatriðið í veitingarekstri – að til okkar geti fólk komið og borðað góðan mat í notalegu umhverfi fyrir sanngjarnt verð” .

Jafnari traffík en áður
Viðskiptavinir Menam eru mjög blandaður hópur. Kristín segir að Selfyssingar séu duglegir að koma í bland við fólk úr nágrenninu. Hún segir að þau fái reyndar viðskiptavini víðs vegar að. „Ég veit að fólk af Suðurnesjunum og úr Reykjavík er að taka sér bíltúr hingað austur gagngert til að koma í mat til okkar og hafa gert reglulega jafnvel svo árum skiptir. Svo hefur orðið mikil aukning ferðamanna eins og flestir vita og fáum við mikið af m.a. asískum hópum. Við erum m.a. með taílenskan kokk sem veit hvað þessir viðskiptavinir vilja og sér alveg um þessa hópa, enda fara þeir mjög ánægðir frá okkur. Það má segja að það sé orðin jafnari traffík en áður, þetta er ekki tveggja til þriggja mánaða sumarvertíð eins og var. Það hefur alveg gjörbreyst á síðastliðnum tveimur til þremur árum. Svo hefur orðið mjög mikil aukning í „take away“ hjá okkur þ.e. að fólk panti mat og taki með heim. Sá hópur viðskiptavina kemur víða að, bæði frá nágrannasveitarfélögunum og einnig þeir sem eru á leið í sumarbústaði. Ég man líka eftir fastakúnna sem kemur keyrandi frá Hvolsvelli til að taka  með sér mat. Eins eru Vestmannaeyingar og jafnvel Hornfirðingar, sem eru á ferðinni, líka duglegir að líta við.“

Ferskt íslenskt hráefni og austurlenskar eldurnaraðferðir
Matargerðin á Menam byggir á fersku íslensku hráefni og austurlenskum eldunaraðferðum og hefðum eins og áður hefur komið fram. Matreiðslan í grunnin taílensk, en hún þykir mjög framarlega í asíska eldhúsinu og sumir telja hana þá bestu. Á Menam eru m.a. allar sósur gerðar frá grunni til að tryggja gæðin og við eldamennskuna koma saman ferskt, íslenskt kjöt og grænmeti við aldagamlar tælenskar hefðir.

„Við fáum inn ferskt grænmeti nær daglega, notum aðeins fyrsta flokks kjöt og kaupum m.a. sérinnflutt hráefni frá birgjum sem sérhæfa sig í taílenskum vörum. Þar leggjum við einnig mikla  áherslu á að kaupa aðeins úrvals vörur“ segir Andri Már matreiðslumaður.

Óhætt er að segja að breytingarnar á Menam hafi tekist vel. Sama hlýja viðmótið er enn til staðar sem og taílenska yfirbragðið sem einkennt hefur staðinn. Svo sakar ekki að geta þess að maturinn er enn jafn frábær og hann hefur verið.

Nýjar fréttir