-1.1 C
Selfoss

Undirbúningur fyrir Unglingalandsmót í Þorlákshöfn gengur vel

Vinsælast

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina í sumar, nánar tiltekið dagana 3. til 5. ágúst. Undirbúningur hefur staðið yfir undanfarna mánuði og hefur gengið vel. Margt er í boði og er búist við fjölmennu móti.

Mikill áhugi og metnaður

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ í Þorlákshöfn 2018.

Ómar Bragi Stefánsson, landsfulltrúi UMFÍ, er framkvæmdastjóri mótsins og var hann spurður hvernig undirbúningurinn hefði gengið.
„Undirbúningurinn hefur gengið ágætlega fyrir sig. Það eru margir öflugir einstaklingar sem skipa sérstaka undirbúningsnefnd sem hefur verið að störfum í töluverðan tíma. Allt er þetta smátt og smátt að taka á sig rétta mynd sem við getum fljótlega farið að kynna.“

Hvaða keppnisgreinar verða á mótinu?
„Það er nú kannski auðveldara að segja hvaða greinar verða ekki á mótinu, framboðið verður mjög mikið enda frábærar íþróttamannvirki í sveitarfélaginu til að halda mótið. Stærstu greinarnar verða væntanlega knattspyrna, frjálsar íþróttir og körfubolti. Síðan koma greinar eins og strandblak og strandhandbolti, golf, skotfimi, glíma, sund, hestaíþróttir, motocross, bogfimi, stafsetning, frisbígolf, fimleikalíf, götuhjólreiðar, ólympískar lyftingar, upplestur og skák. Aui þess verðum við með keppni í kökuskreytingum og dorgveiði,“ segir Ómar Bragi.

Hvað með aðra afþreyingu?
„Afþreyingardagskráin er í vinnslu en það er alveg ljóst að allir munu finna eitthvað við sitt hæfi þar. Hefðbundnar kvöldvökur með vinsælu tónlistarfólki, alls konar leikir og þrautir svo eitthvað sé nefnt. Við höfum lagt áherslu á að yngri systkini hafi nóg að gera. Fjölmörg verkefni standa þeim til boða; frjálsíþróttaleikar, sundleikar, fótboltamót, leiktæki ofl. ofl.“

Hvernig hefur aðkoma sveitarfélagsins verið?
„Aðkoma og áhugi sveitarfélagsins hefur verið í einu orði sagt, frábær. Þar er mikill áhugi og þeir sem þar stjórna hafa mikinn metnað fyrir því að halda gott mót. Einnig hefur verið gríðarlega metnaðarfull uppbygging íþróttamannvirkja á staðnum sem mun nýtast okkur vel. Það er sérstaklega gaman að vinna með þessu samfélagi,“ segir Ómar Bragi.

Mikilvægt forvarnastarf

Gunnsteinn R. Ómarsson sveitarstjóri Ölfuss.

Gunnsteinn R. Ómarsson, sveitarstjóri Ölfuss, var spurður í hverju aðkoma sveitarfélagsins að Unglingalandsmótinu fælist.

„Sveitarfélagið Ölfus leggur til endurgjaldslaus afnot af mannvirkjum fyrir mótshaldið. Á það við um íþróttamannvirki og önnur mannvirki, s.s. vegna stjórnstöðvar mótsins. Einnig útvegum við öll áhöld og tæki sem þarf til keppni á mótinu. Þá sér sveitarfélagið til þess að starfsfólk verði við öll mannvirki og stendur straum af launakostnaði þar sem það á við. Þar sem þörf er á hljóðkerfi, s.s. við mótssetningu og mótsslit, leggur sveitarfélagið til hljóðkerfi. Síðast en ekki síst leggur sveitarfélagið til tjaldsvæði fyrir gesti mótsins þeim að kostnaðarlausu. Svæðið verður með snyrtingum, skv. úttekt Heilbrigðiseftirlits og tryggir þrif á þeim alla mótsdagana og greiðir fyrir. Á tjaldsvæðinu verður rennandi vatni, vaskar og aðgengi að rafmagni,“ segir Gunnsteinn.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir sveitarfélagið að halda Unglingalandsmót í Þorlákshöfn?
Forsvarsmenn Sveitarfélagsins Ölfuss líta á mótshaldið í Þorlákshöfn sem mikilvægan þátt í forvarnastarfi sveitarfélagsins og til eflingar þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Í öflugu íþrótta- og æskulýðsstarfi felast mikil verðmæti fyrir samfélagið. Það felast líka stór tækifæri í vel heppnuðu mótshaldi fyrir sveitarfélag sem er í örum vexti og hefur mjög sterka innviði. Öll sú jákvæða kynning sem mótinu fylgir mun án efa vekja athygli á svæðinu sem búsetukosti og einnig sem kosti til atvinnuuppbyggingar. Þó veðrið leiki stórt hlutverk á Unglingalandsmótum höfum við ekki áhrif á þann þáttinn en þá er mikilvægt að huga vel að þeim þáttum við getum haft áhrif á og bætt innan marka skynsemi. Sveitarfélagið hefur á síðustu árum lagt verulega vinnu og fjármagn í uppbyggingu fyrir mótið. Sérstök áhersla hefur verið á tjaldsvæðið og innviði þess. Knattspyrnusvæðið var stækkað og umhverfi þess lagfært. Unnið hefur verið að gerð tveggja strandblakvalla og settur verður upp frisbígolfvöllur á komandi vori. Aðstaða í íþróttahúsinu hefur verið bætt, m.a. með fjölgun karfa. Nýir heitir pottar verða settir upp við sundlaugina, golfvöllurinn hefur verið bættur mikið á síðustu árum ásamt ýmsum öðrum verkefnum. Það er mikilvægt fyrir sveitarfélagið að vel sé staðið að mótinu og að vel takist til,“ segir Gunnsteinn.

Nýjar fréttir