2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Veggjöldin enn á ný

Veggjöldin enn á ný

0
Veggjöldin enn á ný
Njörður Sigurðsson.

Fyrir Alþingiskosningar sem fram fóru 29. október 2017 var nokkuð rætt um hugmyndir um veggjöld á vegina út frá höfuðborgarsvæðinu. Jón Gunnarsson, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sjálfstæðisflokks, hafði kynnt hugmyndir sínar um slík veggjöld. Þegar nálgaðist kosningar kom hins vegar annað hljóð í strokk Sjálfstæðismanna og þingmenn flokksins sögðu opinberlega að þeir væru á móti veggjöldum. Það sögðu líka frambjóðendur allra annarra flokka.

Þingmaðurinn og ráðherrann
Einn þessara frambjóðenda sem hafnaði veggjöldum var Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Í kjördæmaþætti Rásar 2 þann 24. október 2017 sagði Sigurður Ingi orðrétt: „Við erum náttúrulega á móti veggjöldum.“ Því kom það mörgum á óvart þegar sami Sigurður Ingi, nú orðinn samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í viðtali við Morgunblaðið 29. janúar 2018 að það kæmi til greina að fjármagna samgöngubætur með veggjöldum. Hvað hefur breyst frá því að þingmaðurinn Sigurður Ingi hafnaði veggjöldum þar til ráðherrann Sigurður Ingi taldi að það kæmi til greina að leggja á veggjöld?

Veggjöld og jafnræði
Í viðtalinu í Morgunblaðinu sagði ráðherrann Sigurður Ingi að skoða mætti að byggja Ölfusárbrú í einkaframkvæmd og að einkaaðilinn gæti innheimt veggjöld á brúnni. Ráðherrann taldi jafnframt að ef sú leið yrði farin yrði að tryggja jafnræði og að þá hefðu vegfarendur val um aðra leið og í þessu tilfelli að fara núverandi leið í gegnum Selfoss, svipað og vegfarendur um Hvalfjörð hafa val. Ég er sammála því að mikilvægt sé að tryggja jafnfræði. En jafnræðið á líka að ná til allra landsmanna. Hvers vegna ættu íbúar á Suðurlandi að þurfa að greiða sérstaklega fyrir samgöngubætur á meðan íbúar annarra landshluta þurfa ekki að gera það? Það er ekki jafnræði að íbúar sem búa í kringum höfuðborgarsvæðið þurfi sérstaklega að greiða aukagjöld fyrir samgöngubætur á meðan aðrir þurfa þess ekki. Það er ósanngjarnt. Ætli ráðherrann Sigurður Ingi að koma á veggjöldum og ef hann vill tryggja jafnfræði þarf að skoða þetta mál fyrir landið í heild en ekki aðeins hluta þess.

Vandamálið
Vandamálið sem Sigurður Ingi, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, stendur frammi fyrir er að fjármagna nauðsynlegar samgöngubætur sem stjórnvöld síðustu ára hafa algjörlega vanrækt. Í áðurnefndum kjördæmaþætti Rásar 2 hafði þingmaðurinn Sigurður Ingi hugmyndir um hvernig ætti að fjármagna samgöngubætur og sagðist hann ætla að nota ríkulegan afgang af ríkisfjármálunum í verkefnið. Það er því kannski rétt að þingmaðurinn Sigurður Ingi og ráðherrann Sigurður Ingi ræði saman og reyni að finna hvar þessi ríkulegi afgangur er sem nota átti í samgöngubæturnar.

Tillögur
Mér sýnist að ráðherrann Sigurður Ingi sé í mestu vandræðum með að fjármagna samgöngubætur og þess vegna er enn og aftur leitað í hugmyndina með veggjöld (sem þingmaðurinn Sigurður Ingi var náttúrulega á móti). Mig langar því að benda honum á að nauðsynlegar samgöngubætur er hægt að fjármagna án þess að leggja aukagjald á vegfarendur. Þar má nefna aukinn arð af auðlindum landsins, þreskiptan fjármagnstekjuskatt af háum fjármagnstekjum og stóreignaskatt að undanskildu húsnæði til eigin nota. Þetta eru tillögur sem Samfylkingin lagði fram fyrir kosningar til að fjármagna nauðsynlegar umbætur í þjóðfélaginu og má ríkisstjórnin nota þessar tillögur að vild.

Málið er í raun einfalt. Góðar samgöngur eru ein af grunnstoðum samfélagsins og þess vegna á að fjármagna þær eins og hver önnur verkefni ríkisins.

Njörður Sigurðsson, varaþingmaður Suðurkjördæmis og bæjarfulltrúi í Hveragerði.