-5.4 C
Selfoss

Breytt aðferðafræði hjá Vegagerðinni varðandi lokun fjallvega

Vinsælast

Breytt aðferðafræði Vegagerðarinnar við að loka fjallvegum vegna ófærðar og veðurs hefur margsannað sig. Aðferðafræðinni hefur verið beitt í nokkur ár og hefur bætt ástand sem annars stefndi í óefni. Þær breytingar sem orðið hafa á samsetningu vegfarenda t.d. vegna stóraukinnar vetrarferðamennsku kalla á breytt verklag við lokanir fjallvega. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Þar segir enn fremur:

Lokanir hafa þó verið ítrekaðar að undanförnu, ekki vegna þess að þeim sé beitt í auknum mæli, heldur hefur veðrið kallað á lokanir. Óvenju mikið hefur verið um slæm veður undanfarnar vikur og nú þegar hefur þurft að grípa til lokan jafn oft og síðustu tvo vetur samanlegt. En ástandið er samt ekki eins slæmt og árið 2015.

Það sýndi sig líka nýlega að verklagið skilar árangri því þegar nokkrir vegfarendur tóku upp á því að aka framhjá lokunum leiddi það til festu þeirra og nauðsyn þess að yfirgefa bílana. Það leiddi allt til þess að það tók mun lengri tíma en ella að opna að nýju þegar veður gekk niður og tækifæri gafst til að hreinsa veginn. Það sýndi sig að þolinmæði og bið, þótt erfið sé, skilar meiri árangri fyrir alla aðila. Vissulega eru til bifreiðar og ökumenn sem þess vegna geta ekið yfir Vatnajökul og komast því auðveldlega yfir Hellisheiði hvernig svo sem aðstæður eru. Flestir ökumenn aka á annarskonar farartækjum, ferðamenn vita ekki alltaf hvað tekur við þótt útlitið geti verið fínt við lokunarhliðið og jafnvel stundum líka í vefmyndavélum Vegagerðarinnar. Það þýðir ekki að öll leiðin sé greiðfær.

Vegagerðin leitast við að loka vegum eins sjaldan og mögulegt er og láta lokanir vara eins stutt og kostur er, enda meginmarkmið að tryggja greiðar og öruggar samgöngur. Lokanir eru hins vegar oft á tíðum nauðsynlegar til þess einmitt að tryggja öryggi og draga úr röskun á umferð vegna óveðurs, þar sem það tefur hreinsun og opnun vegar að loknu óveðri ef bílar eru fastir í snjó inni á leiðum eftir að fólki hefur verið bjargað til byggða. Þá er það einnig atriði að tryggja að snjómoksturstæki geti unnið áfram óhindrað á veginum í slæmu skyggni til þess koma í veg fyrir að vegur teppist og stórvirkar vélar þurfi til að opna hann með tilheyrandi töfum.

Mikilvægur þáttur í þessari þróun er einnig að bæta áætlanir um lokanir á grundvelli veðurspár til þess að geta birt þær fyrirfram, en slíkt hefur mælst mjög vel fyrir hjá vegfarendum, sérstaklega ferðaþjónustu og flutningsaðilum. Almennt ríkir orðið góð sátt um forvirkar óveðurslokanir Vegagerðarinnar. Hins vegar er það áhyggjuefni að fjölgun ökumanna sem eru illa undirbúnir til þess að aka við slæm veðurskilyrði setur miklar kröfur um að viðbragð við lokanir sé gott. Með því að manna lokunarpósta á óvissustigi þegar enn er hægt að hafa umferð vel búinna bíla á vegi telur Vegagerðin sig geta upplýst vanbúna vegfarendur um versnandi skilyrði og þannig hvatt þá til að fresta för, og frestað þannig lokunartíma eða jafnvel í einhverjum tilfellum getað komið í veg fyrir lokun. Þegar slæm veðurspá er og viðvaranir fara í loftið þá dregur úr umferð skv. teljurum Vegagerðarinnar þótt að ekki komi til lokana.

Þá er einnig í skoðun hjá Vegagerðinni að innleiða skipulagðan fylgdarakstur með snjómoksturstækjum á ákveðnum leiðum þegar ekki er unnt að hafa frjálsa umferð. Slíkt fyrirkomulag hefur þegar verið reynt við nokkur tilfelli, en löng reynsla er af slíkri þjónustu í Noregi.  Um er að ræða bílalest þar sem vel búnum bílum er fylgt yfir óveðurssvæði þegar aðstæður leyfa. Viðbragðsáætlanir Vegagerðarinnar hafa verið og eru í stöðugri þróun. Til athugunar er fyrirkomulag og útfærsla á umferðarstýringu sem felur í sér að heimila umferð vegfarenda samkvæmt skilyrðum um gerð og útbúnað ökutækja, með eða án fylgdaraksturs.

Farið var að vinna með forvirkar lokanir hjá Vegagerðinni árið 2014 og samhliða hafist handa við að setja upp lokunarhlið á helstu leiðum. Þá var gerður samningur við björgunarsveitir Landsbjargar um aðstoð við framkvæmd lokana. Lokunarhliðum verður bætt við á þeim leiðum eftir því sem þörf segir til um og verkefnið þróað áfram.

Þetta verkefni er enn í þróun og Vegagerðin alltaf reiðubúin til að taka við málefnalegum athugasemdum og tillögum um breytingar. Eins og með alla vetrarþjónustu eru frekari útfærslur og breytingar alls ekki útilokaðar. Vegagerðin vill vinna þetta verkefni og frekari útfærslur í góðu samráði við lögreglu, björgunarsveitir og helstu flutnings- og ferðaþjónustuaðila. Alveg eðlilegt er að almennir vegfarendur hafi á því skoðun hvernig verkefnið er unnið og komi með ábendingar og tillögur.

Vegfarendur eru eigi að síður beðnir um að hlýða lokunum og tilmælum björgunarsveitarmanna sem kunna því mun betur að standa við lokunarpósta en að þurfa að ana í misjöfnu veðri upp á fjöll að sækja strandaða vegfarendur.

Fyrir skömmu ræddi mbl.is við Guðbrand Örn Arnarson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, en Vegagerðin er með samning við slysavarnarfélögin um mönnun lokunarpósta og þetta hafði Guðbrandur Örn m.a. að segja um þetta verk í viðtalinu:

„Okk­ar reynsla er sú að lok­un­ar­verk­efn­in hafa hjálpað mjög mikið sem for­varn­ar­verk­efni. Það er al­veg klárt að hefðu þess­ar lok­an­ir ekki komið til, að þá hefðum við verið meira í út­köll­um,“ seg­ir hann. Hjá minni björg­un­ar­sveit­um úti á landi hafi þetta t.d. þau áhrif tveir menn séu á vakt í stað þess að öll björg­un­ar­sveit­in sé í út­kalli. „Í heild­ina séð þá er þetta mjög já­kvætt, vegna þess að menn hefðu ann­ars þurft að vera hvort eð er í út­kalli á sama tíma.“

Þess­ar for­virku lok­an­ir hjálpi þannig til við að fækka út­köll­um, sem komi veg­far­end­um ekki síður vel. „Við finn­um það al­veg á þeim veg­far­end­um sem njóta þess­ar­ar ráðgjaf­ar frá okk­ar fólki þegar við erum að stoppa af þá sem eru kannski ekki van­ir vetr­arakstri og jafn­vel á van­bún­um bíl­um,“ seg­ir Guðbrand­ur Örn og kveður þetta eiga jafnt við um er­lenda ferðamenn sem inn­lenda.

Nýjar fréttir