-5.8 C
Selfoss

Samstarf Árborgar og Vegagerðarinnar

Vinsælast

Að sögn Ástu Stefándóttur hjá Árborg hefur sveitarfélagið á síðustu árum lagt mikla áherslu á gerð göngustíga og er búð að malbika mikið af stígum í þéttbýlinu. Stígurinn á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar var lagður í nokkrum áföngum, en eftir er að malbika hann. Sveitarfélagið Árborg og Vegagerðin hafa frá síðasta hausti verið í samstarfi um stígagerð, en Vegagerðin veitir styrki til að leggja stíga meðfram umferðarmiklum vegum.

„Við fórum í samstarf við Vegagerðina í fyrra og fengum styrk þaðan. Við fengum þannig 20 milljónir á síðasta ári og aftur 20 milljónir á þessu ári. Styrkurinn er háður því að sveitarfélagið komi með aðra eins upphæð á móti til að leggja stíga meðfram aðalleiðum,“ segir Ásta.

Þrír stígar eru undir í þessu verkefni. Í fyrsta lagi að setja malbik og ljós á stíginn sem liggur meðfram Suðurlandsveginum að Ingólfstorgi þar sem Toyota er. Þar er búið að malbika og staurarnir verða að sögn Ástu settir upp með vorinu. Síðan er það lagning á nýjum göngu- og hjólastíg alveg frá Selfossi niður á Eyrarbakka. Það verkefni er komið talsvert af stað. Inn í þessu er líka að malbika Fjörustíginn milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.

„Með þessum stíg meðfram Eyrarbakkaveginum og tengingu við Fjörustíginn á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka náum við að tengja þéttbýlisstaðina okkar saman með góðum og greiðfærum stígum, sem jafnframt tengjast þéttustu byggðinni í dreifbýlinu. Það er mjög skemmtilegt verkefni. Við vonumst til að fá áfram fjárveitingu í þetta frá Vegagerðinni á árinu 2019 því fjármagnið dugir ekki til að klára allt á þessu ári. Þetta er verkefni sem auðvelt að vinna í áföngum. Með þessu getum við haldið áfram þessari stígauppbyggingu. Við finnum að fólk notar stígana ekki bara til að komast á milli staða heldur líka til heilsuræktar með því að skokka, ganga eða hjóla. Þetta er þannig séð bæði samgöngumannvirki og íþróttamannvirki,“ segir Ásta.

Nýjar fréttir