-4.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ísland ljóstengt – Flóaljós

Ísland ljóstengt – Flóaljós

0
Ísland ljóstengt – Flóaljós
Eydís Þ. Indriðadóttir, sveitarstjóri Flóahrepps.

Verkefnið „Ísland ljóstengt“ er landsátak í uppbyggingu ljósleiðarakerfa í dreifbýli utan markaðssvæða. Markmiðið með verkefninu er að 99,9% allra heimila á Íslandi eigi kost á 100 mb/s þráðbundinni nettengingu árið 2020. Aðeins vantar um 2.000 tengingar um næstu áramót til þess að það markmið náist

Ljósleiðaravæðing utan þéttbýlis stuðlar jafnframt að uppfærslu stofnkerfa fjarskipta á landsvísu og er forsenda meiri áreiðanleika, útbreiðslu og gagnaflutningshraða allra farneta utan þéttbýlis.

Flóahreppur sótti um styrk til verkefnisins „Ísland ljóstengt“ vegna 236 styrkhæfra staða í sveitarfélaginu og fékk úthlutað 74 milljónum króna. Auk þess hefur Byggðastofnun lagt fram 4 milljónir til verkefnisins. Við verkefnið er einnig gert ráð fyrir aðkomu íbúa og sveitarsjóðs og er forsenda þess að styrkur verði afgreiddur að samanlagt framlag íbúa og sveitarfélags sé að lágmarki 350.000 kr. á tengingu. Sveitarstjórn Flóahrepps hefur ákveðið að stofna B-hluta félag sem verður alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins og í eigu þess til þess að leggja og reka ljósveitu í Flóahreppi. Félagið hefur fengið nafnið Flóaljós. Fyrir liggur að meta efnisþörf til þess að hægt sé að kalla eftir verðum í efni, ásamt því að vinna útboðsgögn vegna jarðvegsframkvæmda. Til þess að endanleg hönnun gefi sem réttasta mynd þá verða allir íbúar heimsóttir til þess að kanna áhuga þeirra á þátttöku í verkefninu. Í heimsókninni gefst verkefnisstjóra auk þess færi á að veita ráð til íbúa og að leita ráða varðandi bestu mögulega útfærslu á staðsetningu á heimtaugar.

Gert er ráð fyrir því að íbúar greiði tengigjald fyrir hvert heimili 250.000 kr. með vsk. Stefnt er að því að útboð í efni og framkvæmdir fari fram í vor og að verklegar framkvæmdir geti hafist í ágúst 2018.

Eydís Þ. Indriðadóttir, sveitarstjóri Flóahrepps.