1.7 C
Selfoss

Mikil fjölgun í skólum og leikskólum í Árborg

Vinsælast

Mikill uppgangur er í Sveitarfélaginu Árborg um þessar mundir sem m.a. lýsir sér í gríðarlegri fjölgun íbúa og miklum byggingaframkvæmdum. Heilmargt er í gangi og framundan hjá sveitarfélaginu. Að hluta til er það tilkomið til að mæta aukinni íbúafjölgun. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, var spurð út í þau mál.

Íbúum á eftir að fjölga mikið
„Það er svolítið erfitt að spá til um hvað íbúum muni fjölga mikið á þessu og jafnvel næstu árum. Það varð algjör sprenging á síðasta ári þegar það flutti hingað yfir 500 manns. Við gerum ráð fyrir að íbúafjölgunin haldi áfram þó hún verði kannski ekki alveg jafn mikil. Hún gæti samt alveg farið hátt í þetta. Við erum núna að bjóða út gatnagerð fyrir þrjár götur í Hagalandi þ.e. landi sem sveitarfélagið á. Þar verða 70–80 íbúðir. Svo erum við að deiliskipuleggja í Björkulandinu þar sem nýr skóli á að koma. Það verður næsta íbúðahverfi sem verður hægt að taka inn í einhverjum áföngum. Við ætlum að taka skólann í notkun haustið 2020 sem þýðir að við verðum að fara í ákveða gatnagerð. Við þurfum náttúrulega að gera götuna að skólanum og það sem þarf í kringum þá uppbyggingu, þannig að þar gæti alveg verið hægt að gera götur fyrir íbúðarhúsnæði líka, samhliða þessum undirbúningi fyrir skólann. Við gætum því farið að úthluta lóðum þar 2020. Síðan eiga einkaaðilar enn talsvert af lóðum og eru í áframhaldandi gatnagerð, t.d. í Dísarstaðalandi.“ segir Ásta.

Byggt við leikskólann Álfheima
„Við erum núna komin af stað með vinnu við hönnun á viðbyggingu við leikskólann Álfheima. Helgi Bergmann sem teiknaði skólann upphaflega er að hanna stækkun um þrjár deildir. Verkið fer væntanlega í útboð í haust. Framkvæmdatíminn verður að líkindum u.þ.b. ár eða svo. Stækkunin gæti því verið tekin í notkun haustið 2019. Svo er ein bráðabirgðastofa við Álfheimana sem við ætlum að leggja af þegar að viðbyggingin er komin. Þetta er brýn nauðsyn miðað við þann aukna fjölda sem er í þessum aldurshópi hjá okkur,“ segir Ásta.

Sunnulækjarskóli stækkaður
„Síðan erum við komin af stað með eina stækkunina enn á Sunnulækjarskóla, en það er búið að byggja hann í nokkrum áföngum á mörgum árum. Þetta verður sennilega síðasti áfanginn í kennsluhúsnæði. Þetta er leið til að geta tekið á móti öllum þeim nemendum sem eru að koma nýir til okkar þangað til við verðum komin með nýjan skóla í Björkulandinu. Hugsunin er þá að þessi stækkun á Sunnulækjarskóla geti nýst t.d. fyrir skólavistunina eða frístundina því hún hefur í rauninni aldrei haft skilgreint pláss í skólanum. Kennslustofur hafa verið notaðar sem eru auðvitað vinnustaður kennaranna eftir að kennslu lýkur. Þá yrði komin mjög góð aðstaða fyrir skólavistun í Sunnulækjarskóla eins og er nú þegar í Vallaskóla og Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri.“

Hönnun nýs skóla í Björkulandi
„Vinna er komin af stað við undirbúning nýs skóla í Björkulandi, starfshópur hefur fundað stíft undanfarið. Við stefnum að því að taka í notkun þar fyrsta áfanga skólans, sem ég veit kannski ekki alveg hvað verður stór, fyrir fjóra árganga eða svo, haustið 2020. Það er ekki langt í það og unnið ötullega að þessu,“ segir Ásta.

Talsverðar breytingar í Vallaskóla
„Svo má nefna að það stendur til að fara í talsvert miklar breytingar í Vallaskóla, m.a. almennt viðhald og endurbætur á húsinu. Stærstu breytingarnar eru þó fólgnar í því að þar eru tveir innigarðar, rými inn í miðju húsi með glerveggjum en þaklaus, sem verður byggt yfir eins og var gert fyrir nokkrum árum við sams konar rými þar sem bókasafnið er. Með því fæst meira kennslurými í Vallaskóla. Á síðasta skólaári fór að fjölga í Vallaskóla eftir stöðugleika sem hafði verið í nemendafjölda þar undanfarin ár. Það skýrist m.a. af hraðri uppbyggingu í Hagalandinu sem á skólasókn í Vallaskóla og svo virðist vera að yngjast eitthvað í gömlu hverfunum sem hafa skólasókn þangað,“ segir Ásta.

Nýjar fréttir