1.7 C
Selfoss

Byggt fyrir eldri borgara á Selfossi

Vinsælast

Sveitarfélagið Árborg er þátttakandi í byggingu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða á Selfossi sem ríkið samþykkti á síðasta ári að fara í. Þar greiðir Sveitarfélagið Árborg 16% af byggingarkostnaði. Heimilið verður staðsett austan við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi. Um þessar mundir er verið að hanna heimilið og væntanlega fer það í útboð í haust. Ljóst er að þar er heilmikið verkefni framundan. Að sögn Ástu Stefánsdóttur hjá Árborg er sveitarfélagið að vinna að skipulagi lóðarinnar samhliða hönnunarvinnunni.

Ásta var spurð um önnur málefni er tengjast eldri borgurum.

„Sveitarfélagið er að kaupa hús sem er í byggingu fyrir félagsstarf og dagdvöl eldri borgara. Það er viðbygging við Grænumörkina og tengist íbúðum fyrir 50 plús sem er verið að byggja líka við Austurveginn. Það ætti að vera hægt að flytja inn í það næsta sumar. Með því rýmkar verulega um félagsstarf eldri borgara sem er alveg gjörsamlega sprungið í dag. Við fáum miklu betri aðstöðu og pláss fyrir dagdvöl sem er í dag rekin í Grænumörk í einni íbúð þar. Það losnar þá ein íbúð sem fer í leigu. Dagdvölin fær miklu rýmra og betra pláss í þessari nýju byggingu. Þar verður líka möguleiki á að taka við fleirum í þjónustu því það er þörf fyrir að fleiri komist inn í dagdvöl. Fólk býr orðið lengur heima hjá sér þegar það er orðið fullorðið og þarf að geta komist í svona afþreyingu og fengið aðstoð við ýmislegt yfir daginn,“ segir Ásta.

Sveitarfélagið hefur aukið þjónustu við aldraða sem búa heima hjá sér til að mæta því álagi sem skapast hefur vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Félagsþjónusta Árborgar sinnir heimaþjónustu og HSU annast heimahjúkrun og er leitast við að samþætta þá þjónustu sem unnt er til að veita sem besta þjónustu heim.

Nýjar fréttir