1.7 C
Selfoss

Vinir vegfarandans í Mýrdalshreppi

Vinsælast

Stofnuð hafa verið samtök áhugamanna um bættar samgöngur og umferðaröryggi í Mýrdalshreppi sem bera heitið Vinir vegfarandans. Í tilkynningu frá samtökunum segir að þau ætli að leggja sitt af mörkum til að þrýsta á úrbætur á samgöngumannvirkjum til að auka umferðaröryggi, þar sem þau séu ört vaxandi ferðamannabær eins og sýslan öll og eigi þau afkomu sína undir því að í Mýrdalshreppi sé öruggt og gott flæði umferðar.

Baráttumálin eru mörg enda ekki vanþörf á að gera úrbætur í vegamálum á svæðinu í ljósi aukinnar umferðar og fjölgunar umferðarslysa. Þar ber fyrst að nefna að brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi er einbreið og brýnt að hún verði tvöfölduð. Þetta er fyrsta einbreiða brúin sem ferðamenn keyra yfir á leið sinni um Suðurlandið og mesta umferðin. Breikka þyrfti veginn frá Markarfljóti að Vík og áfram austur til að anna þeim umferðarþunga sem er á þjóðveginum, miðað við þær reglur sem um það gilda.

Félagið mun meðal annars halda áfram að þrýsta á að lagður verið láglendisvegur eins og aðal- og deiliskipulag Mýrdalshrepps gerir ráð fyrir með stuttum göngum í gegnum Reynisfjall, þar sem umferðin í gegnum Víkurþorp er orðin óbærileg. Umferðin þar í gegn klýfur þorpið en vegurinn þar er í raun þröng íbúagata. Í vinnu við aðalskipulagið árið 2012 var umferðin 200.000 bílar á ári og var þá talið að vegurinn yrði að víkja vegna umferðar. Nú árið 2018 hefur umferðin fimmfaldast, þannig að um 1 milljón bíla fara þar um á ári. Með láglendisveginum myndi að auki leggast af sá vegakafli sem verstur er á suðurströndinni allt austur á Reyðarfjörð. Gatnabrúnin er þar verst, en einnig er mjög misvindasamt inn með Reynisfjalli. Ekki hefur verið farið í þá vinnu hvað þessi breyting á veginum myndi spara í kolefnisútblæstri en sparnaður í akstri yrði u.þ.b. 8 millj. km. á ári miðað við óbreytta umferð.

Vegasamgöngur eru einu samgöngurnar sem þjóna þessum landshluta, suðurströndin er hafnlaus og ekki er neitt flug inn á svæðið. Bæði siglingar og flug eru inn á samgönguáætlun. Þá má geta þessa að ljósleiðaravæðing er líka inn á samgögnuáætlun, en í Mýrdalshreppi er henni lokið í einkaframkvæmd án aðkomu ríkisins. Þannig að mjög hefur hallað á þetta svæði í skiptinu fjármagns til samgögnumála.

Að lokum segir í tilkynningunni: „Bætt umferðaröryggi er eitt af stóru málunum og trúum við því ekki að nokkur maður hafi á móti því að bæta öryggi í umferðinni og greiða fyrir umferð sem við eigum svo mikið undir, landbyggðin.

Vinir vegfarandans munu halda út fésbókarsíðu undir nafni samtakanna. Í stjórn samtakanna eru Bjarni Jón Finnson formaður, Þórir Kjartansson ritari, Bryndís F. Harðardótttir, Sigurður Elías Guðmundsson og Magnús Örn Sigurðjónsson meðstjórnendur.

Nýjar fréttir