5 C
Selfoss
Home Fréttir Ég er óreglumaður á lestur

Ég er óreglumaður á lestur

0
Ég er óreglumaður á lestur
Stefán Ólafsson.

Stefán Ólafsson áhugaleikari og lestrarhestur Dagskrárinnar segist vera framleiddur að Hurðarbaki í Villingaholtshreppi hinum forna eða Flóahreppi en hefur verið í lengri tíma búsettur á Selfossi og sé það svolítið áfall að fatta þá staðreynd. Hann lætur tímann líða við að „dæla steinsteypu um fjöll og dali á Járnfrúnni (steypudælan heitir sko Járnfrúin) og þá er gott að hafa Bændablaðið með og kaffi og kleinu.“

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Hurðu nú er það Kapteinn ofurbrók og líftæknilega horskrímslið sem ég og Orri Freyr sonur minn erum að lesa og hún er bara fjandi góð barnabók. Svo hef ég Okkur bækurnar eftir Hugleik Dagsson á náttborðinu ef ég vil sofna brosandi og Einræður Steinólfs eftir finnboga Hermannson er aldrei langt undan allt árið um kring. Það er bók sem er góð jafnt helga daga sem hvunndags.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég er nú enginn lestrarhestur heldur meira svona óreglumaður á lestur en hef mikinn áhuga á bókum. Ef uppáhalds eiginkonan mín týnir mér í Kringlunni þá er ég ábyggilega í bókabúð. Sumt les ég í einni lotu og annað þarf ég að lesa oft eins og Einræður Steinólfs sem er skemmtileg. Já og þegar ég var lítill þá valdi ég oft fljótlesnar bækur til lestrar svo þær tækju einhvern tímann enda.

Hvers konar bækur höfða til þín?
Það held ég að séu allskonar gerðir af bókum til dæmis frásagnir af alvöru fólki sem hefur eitthvað merkilegt að segja og hvurnig lífið var áður fyrr eins og Hrakningar á heiðavegum eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson, Það var rosalegt eftir Hákon Aðalsteinsson og Útkallsbækurnar. Svo eru skáldsögur eins og Djöflaeyjan eftir Einar Kárason alveg skrattans snilldarsaga. Best var þegar þeir veiddu hóp af villiköttum til að veiða allar rotturnar í kjallaranum heila helgi svo þurfti að moka jukkinu upp með skóflu og fötu. Svo má nefna Gamlingjann sem skreið út um gluggann og hvarf eftir Jonas Jonasson. Hana ætti allt ungt fólk að lesa því hún er full af fallegum boðskap og tilveran ekki flókin hjá þeim gamla og alveg drullufyndin.

Áttu þér áhugaverða lestrarminningu?
Jú ég man hvað ég átti auðvelt með að læra að lesa í barnaskóla miðað við allt hitt draslið og ef maður komst í kaupfélagið sem krakki þá var nóg að lesa þar. Oft er það þannig hjá okkur pabba að ef við lesum eitthvað sniðugt í bók þá lesum við það aftur fyrir hvorn annan. Ekki er langt síðan ég las Sjálfstætt fólk. Það gerði ég af nauðsyn því allir í kring um mig eru sífellt að vitna í og tala um hana og nú veit ég hvað fólk er að tala um. Og Íslandsklukkan. Hana las ég eftir að hafa farið í kviðslitsaðgerð og var það heilmikil lífsreynsla (ekki gott að hlæja).

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Aha, auðveld spurning. The Life and Times of Scrooge McDuck eftir Don Rosa sem er ævisaga Jóakims Aðalandar. Alveg snilldarlega vel skrifuð og heilsteypt bók með góðum texta og myndirnar eru listaverk með endalausum smáatriðum og bröndurum. Svo gætu börn alveg haft gaman að henni líka. Síðan er til bók sem heitir Helgi skoðar heiminn með teikningum eftir Halldór Pétursson. Mjög eftirminnileg og lista vel teiknuð. Það má kannski segja að teiknimyndabækur hafi verið í uppáhaldi í barnæsku. Viggó, Svalur og Valur, Ástríkur og fleiri bækur voru og eru enn í miklu uppáhaldi.

En hefur einhver bók haft sérstaklega mikil áhrif á þig?
Það er Híbýli vindanna eftir Böðvar Guðmundsson. Hvurnig getur verið svona skemmtilegt að lesa um svo ömurlega tilveru fólks sem flýr frá oki ömurlegs fólks á Íslandi til Vesturheims að takast á við fleira ömurlegt fólk og hrikalega náttúru. Svo verð ég að nefna Sven Hazel skáldsögurnar sem fjalla um hóp manna í þýska hernum í seinni heimsstyrjöldinni og lýsa öllu ógeðinu sem gekk þar á og hvernig þessum mönnum gekk að komast af í stríðinu. Sögurnar sveiflast frá spennu og drama til kolsvarts húmors.

Að lokum Stefán er til líf án bóka?
Ekki úr þessu sem betur fer. Annars hefði ég allavega misst af miklu en kannski er líf án bóka hjá geimverum. Því í bíó sér maður aldrei geimverur að lesa bækur og kannski þess vegna eru þær alltaf svona ráðvilltar og gerandi innrás og svoleiðis vesen en að vera bara nægjusamar heima hjá sér og rækta garðinn sinn. Því maður á alltaf að rækta garðinn sinn eins kemur fram í Birtingi eftir Voltaire.