-0.5 C
Selfoss

Saklausa bæjarfjallið

Vinsælast

Ingólfsfjall hefur stundum verið nefnt bæjarfjall Selfoss þrátt fyrir að það tilheyri að stærstum hluta Ölfusi. Hæsti punktur á miðju fjallinu er Inghóll sem er í 551 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson er sagður grafinn. Fjallið er flott útsýnisfjall og þangað er skemmtilegt að fara og gildir þá einu hvort gengið sé alla leið á Inghól eða aðeins upp á brún. Fjölmargar leiðir eru færar upp á fjallið þó hin hefðbundna gönguleið austan Þórustaðanámu sé lang mest gengin. Á góðum sumardegi er fátt betra en reima á sig skóna, setja vatnsflöskuna í vasann og skunda upp að vörðu þar sem gestabók Ferðafélags Árnesinga er staðsett. Gildir einu hvort þú ætlir þér að vera 20 mínútur á leiðinni upp eða tvær klukkustundir.

Það sem færri gera sér grein fyrir er sú staðreynd að á veturna eru oftast allt aðrar aðstæður á fjallinu sem krefjast annars konar nálgunar og búnaðar. Við virðumst oft gleyma því að Ingólfsfjall í vetraraðstæðum er alvöru fjall þar sem smávægileg mistök geta verið dýrkeypt. Í svartasta skammdeginu ætti höfuðljós alltaf að vera meðferðis þrátt fyrir að ekki sé stefnt að því að vera á ferðinni eftir myrkur. Í vetrarfjallamennsku eiga mannbroddar og ísöxi að vera jafn sjálfsagður búnaður í bakpokanum og húfa og vettlingar. Þegar komið er í álíka bratta og í hlíðum Ingólfsfjalls eru hefðbundnir „hálkubroddar“ ekki gjaldgengir og þörf er á alvöru mannbroddum fyrir fjallamennsku. Einnig þurfa ferðalangar að vera meðvitaðir um mögulega snjóflóðahættu í Ingólfsfjalli líkt og annars staðar þar sem ferðast er til fjalla. Bratti á gönguleiðinni er víða í kringum 30–35° sem getur verið kjörhalli fyrir snjóflóð. Því er mikilvægt að vera búinn að kynna sér aðstæður, veður undanfarna daga og snjóalög áður en ákvörðun er tekin um að ganga á fjallið því það er því miður svo að mannskætt snjóflóð hefur fallið í Ingólfsfjalli.

Við ættum að bera alltaf virðingu fyrir Ingólfsfjalli og meta aðstæður og þörf á búnaði áður en lagt er af stað upp hlíðina. Ferðumst á ábyrgan og öruggan hátt því góðar stundir á fjöllum eru ómetanlegar.

Tryggvi Hjörtur Oddsson, formaður Björgunarfélags Árborgar
Sævar Logi Ólafsson, formaður Hjálparsveitar skáta Hveragerði

Nýjar fréttir