-8.3 C
Selfoss

Nýjungar í starfi Félags eldri borgara á Selfossi

Vinsælast

Í nóvember sl. gafst félögum í Félagi eldri borgara á Selfossi kostur á að sækja námskeið í ritun endurminninga hjá Guðmundi Brynjólfssyni, rithöfundi. Það eru margar aðferðir mögulegar vilji fólk skrifa endurminningar.

Á námskeiðinu voru skoðaðar nokkrar leiðir til þess og nemendur prófuðu sig áfram. Ein aðferð hentar þessum en önnur hinum. Allir lásu bók Jakobínu Sigurðardóttur, Í barndómi og var hún notuð sem grundvöllur að þeirri vinnu sem lagt var í, án þess þó að binda sig við aðferð hennar. Skoðaðar voru kenningar um minnið, um áreiðanleika þess og ágalla, einnig mismunandi frásagnarhátt og þátttakendur mátuðu sig við hvað passar hverjum; skoðuð voru einföld brögð til þess að fanga athygli væntanlegs lesanda og skoðuð þau mörk sem ætti – líklega – að halda sig við þegar æviminningar eru skrifaðar; því að mörgu er að huga. Minningar okkar skarast nefnilega alltaf við líf annars fólks.

Mikil ánægja var hjá þátttakendum á námskeiðinu og munu þeir væntanlega kynna skrif sín á Opnu húsi í Grænumörk síðar í vetur.

Nú í lok janúar er fyrirhugað annað námskeið en það fjallar um að skrifa ljóðrænan texta. Umsjón með því hefur Jón Özur Snorrason, íslenskufræðingur og kennari við FSu. Þar verður er fjallað um ljóð jafnt hefðbundin sem óhefðbundin og sýnishorn útgefinna ljóða greind og túlkuð. Ýmis hugtök í ljóðgreiningu kynnt og rædd. Að því loknu spreyta nemendur sig á að semja sinn eigin ljóðræna texta sem byggir á sjálfvöldu viðfangsefni eins og minningum, tilfinningum, náttúru, hversdegi, litum, árstíðum og augnablikum svo nokkuð sé nefnt.

Þessi námskeið eru hugsuð til að auka fjölbreytileika í starfi eldriborgara. Áhugasvið fólks er misjafnt en þarna gefst tækifæri til að til þess að hrista upp í kollinum og laða fram myndir og minningar.

Einnig í boði að heimsækja Listasafn Árnesinga í Hveragerði. Þá er safnast saman í einkabíla og sýningar skoðaðar undir leiðsögn Ingu Jónsdóttur, safnstjóra.

Nýjar fréttir