3.9 C
Selfoss

Ungir listamenn sóttu sé innblástur á Eyrarbakka

Vinsælast

Dagana 8.–17. janúar sl. komu níu listamenn frá nokkrum löndum og gistu á Bakka Hostel á Eyrarbakka á Saga Listavinnusetri. Þau dvöldu tímabundið á Eyrarbakka og unnu að listköpun sinni með sjálfbærni og samfélagslegar breytingar að leiðarljósi.

Listamennirnir unnu með bæjarbúum, unglingum, listamönnum og fleirum með það fyrir augum að skyggnast inn í sögu bæjarins og sækja sér innblástur. Þann 16 . janúar sýndu þau afrakstur vinnu sinnar á Eyrarbakka þar sem bæjarbúar tóku sér gönguferð milli verka sem voru á ýmsum stöðum í bænum. Svo sem gamla Frystihúsinu, í bílskúr, yfirgefnu húsi, í kartöflugeymlu, við sjóinn og rétt fyrir utan Litla-Hraun.

Hrefna Lind Lárusdóttir var ein af þeim stóð að viðburðinum og var hún beðin að segja aðeins frá honum.

Snýst um upplifun og innblástur
„Listavinnubúðirnar snúast fyrst og fremst um upplifun og innblástur, að tengjast hvert öðru og staðnum sem dvalið er á og skoða hvað hefur áhrif og styður við listsköpun þeirra. Það sem skiptir þó mestu máli er, þegar fólk upplifir svona mikla gestrisni, að geta gefið til baka til samfélagsins, hvort sem það er í formi listaverka, upplifana eða innblásturs og var lokadagurinn ein leið til þess að sýna þakklæti í verki. Sem dæmi um verk sem voru sýnd var vegglistaverk eftir bandarískan hönnuð sem er málað á gamla Frystihúsið. Verkið er upplifunarkort sem endurspeglar allt sem hann lærði um og sá á meðan dvöl hans stóð. Merkin tákna bæði sögur og persónur sem hann hitti og heyrði af,“ segir Hrefna Lind.

Josiah Werning hönnuður með vegglistaverkinu Frásagnir frá Eyrarbakka.

Feykimikill kraftur sem myndast
„Eyrarbakki er alveg einstakur bær. Nú höfum við verið með þessa vinnustofu þrjú ár í röð og það er alveg ótrúleg gestristni og samstarfsverkefni sem ná að myndast á þessum tíu dögum. Við fáum að hitta hæfileikaríkt og skemmtilegt fólk. Til að mynda unnum við með Barnaskólanum á Eyrarbakka þar sem unglingar unnu i hópum með listamönnum að verkefnum. Það voru unnin vidóverk, myndlistaverk og viðburðir, þar sem nemendurnir fengu að skapa og búa til verk undir handleiðslu listamannanna. Spænsk tónlistarkona heimsótti fjölskyldur og fólk á elliheimilinu Sólvöllum og söng til þeirra. Þetta voru einstaklega fallegar stundir sem þau sköpuðu saman og minningar sem fá áfram að lifa. Önnur verkefni voru hljóðverk í yfirgefnu húsi, myndbandsverk, ljósmyndir, og viðburður fyrir utan Litla-Hraun. Það er feykimikill kraftur sem myndast þegar svona margir koma og vinna saman og það er okkur mikilvægt að ná til yngru kynslóðarinnar sem hefur áhuga á listum. Þeim er boðið að koma og vera hluti af hópnum á einn eða annan hátt og læra hvert af öðru. Þetta heppnaðist alveg einstaklega vel og okkur hlakkar til að koma aftur á næsta ári og kynnast fleira fólki og þróa dýpri tengsl við þær manneskjur sem við höfum nú þegar hitt,“ segir Hrefna Lind.

Nýjar fréttir