3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Metaregn í frjálsum á HSK-svæðinu á síðasta ári

Metaregn í frjálsum á HSK-svæðinu á síðasta ári

0
Metaregn í frjálsum á HSK-svæðinu á síðasta ári
Íslandsmethafarnir f.v.: Hákon Birkir Grétarsson, Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Dagur Fannar Einarsson og Jónas Grétarsson. Mynd: Umf. Selfoss.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum voru samtals 222 HSK-met sett á síðasta ári og hafa aldrei verið sett jafn mörg met á einu ári innan sambandsins. Fatlaðir settu þrjú met, keppendur 11–22 ára settu 154 met, keppendur í karla- og kvennaflokkum settu 12 met og keppendur í öldungaflokkum settu 53 met. Nokkur þessara meta eru einnig landsmet í viðkomandi flokki.

Dagur Fannar Einarsson, keppandi í 15 ára flokki, setti 19 einstaklings HSK-met á árinu og setti auk þess 14 boðhlaupsmet með félögum sinnum, eða samtals 33 met. Eva María Baldursdóttir Selfossi, sem keppti í 14 ára flokki, setti samtals 26 HSK-met.

Næst kom Sindri Freyr Seim Sigurðsson úr Umf. Heklu. Hann keppti í 14 ára flokki og setti 13 einstaklingsmet og 11 boðhlaupsmet, eða samtals 24 met. Hann setti auk þess flest Íslandsmet keppenda HSK á árinu, eða þrjú einstaklingsmet og eitt boðhlaupsmet.

Guðrún Heiða Bjarnadóttir, keppandi í 20–22 ára flokki og Bríet Bragadóttir, keppandi í 15 ára flokki, settu flest HSK-met í fullorðinsflokki, en þær settu báðar tvö met í kvennaflokki. Auk þess setti Bríet 15 met í yngri flokkum og Guðrún Heiða setti auk þess fimm met í sínum flokki.

Guðmundur Nikulálsson sett flest met í öldungaflokkum, en hann setti 15 met á árinu í flokki 55–59 ára. Árni Einarsson setti 10 met í flokki 85–89 ára. Hann var sá elsti sem setti met á árinu, en hann varð 86 ára á árinu.

Hulda Sigurjónsdóttir Suðra var sú eina sem setti HSK-met í flokkum fatlaðra á árinu, eða þrjú talsins.

HSK metaskrár, þar sem einnig má sjá yfirlit allra HSK meta sem sett voru á síðasta ári má nálgast á vef HSK, www.hsk.is.