-1.6 C
Selfoss

Stór verk til sýnis í Listasafninu í Hveragerði

Vinsælast

Frá og með fimmtudeginum 18. janúar er Listasafn Árnesinga aftur opið fjóra daga í viku, fimmtudaga til sunnudaga. Þar stendur nú sýningin Verulegar, Brynhildur Þorgeirsdóttir · Guðrún Tryggvadóttir, sem hefur verið framlengd til 25. febrúar.

Hvernig er hægt að mála málverk sem er 4×4 metrar að stærð og hvernig er því komið fyrir? Forvitnilegt verk að skoða með titilinn Fjórða víddin eftir Guðrúnu Tryggvadóttur og þó það sé aðalega málað með olíulitum á striga þá er í verkinu líka aska og hreint gull. Utandyra má líka sjá stóran skúlptúr sem er tæpir 3 metrar á hæð og a.m.k. 2 metrar í þvermál sem ber það virðulega nafn, Árnesingur og höfundurinn er Brynhildur Þorgeirsdóttir. Ekki að ósekju að sýningin beri heitið Verulegar sem vísar bæði í veruleg verk, verulega listamenn sem og verur því bæði Brynhildur og Guðrún fást við fígúratífa list, en líka abstrakt auk þess að sækja í fantasíuna. Hvernig kallast verk þeirra beggja á og hvernig geta þau örvað skilningarvit okkar? Sjón er sögu ríkari og heimsókn skemmtilegt viðfangsefni. Starfsfólk safnsins gefur nánari upplýsingar og reynir að svara spurningum sem vakna og börn eru alltaf velkomin, gjarnan í fylgd fullorðna og athafnasvæði er fyrir þau í safninu. Fljólega verður líka auglýst leiðsögn þar sem þær Brynhildur og Guðrún segja frá og svara spurningum.

Þó flest verkanna séu unnin á síðustu þremur árum eru einnig á sýningunni verk frá upphafi ferils þeirra Brynhildar og Guðrúnar þar sem greina má tíðaranda níunda áratugarins þegar form og inntak verkanna birtu viðhorf í andstöðu við hefbundna myndlist þess tíma. Sýningarstjóri er Inga Jónsdóttir safnstjóri en Heiðar Kári Rannversson listfræðingur ritar grein í sýningarskrá sem gefin er út um sýninguna. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir.

Nýjar fréttir