-0.5 C
Selfoss

Menn hafa greinilega mikið dálæti á mömmumat

Vinsælast

Þann 1. desember síðastliðinn opnaði nýr veitingastaður að Hrísmýri 6 á Selfossi. Eigendur staðarins eru Einar Björnsson og Anna Stella Eyþórsdóttir. Á sama stað reka þau Suðurland FM Útvarp Suðurland, EB-kerfi og skemmtistaðinn Hvíta húsið. Einar var spurður hvernig þetta hefði komið til þ.e. að opna veitingastað.

„Þetta er níu ára gömul hugmynd sem við hrintum í framkvæmd á örfáum dögum í byrjun desember. Við höfðum reyndar stefnt að þessu í langan tíma því hér var allt til alls til að setja þetta af stað. Hér voru til stólar og borð og eldhús með öllu sem þarf til þess að byrja. Við höfum síðastliðin tvö ár verið að elda fyrir stórar veislur og höfðum græjað okkur í það. Þannig að það var í rauninni ekkert eftir að gera til að byrja. Það vantaði bara að keyra þetta í gang. Við gerðum húsnæðið aðeins betra, máluðum veggi og lökkuðum gólf og settum upp nýjar gardínur. Þetta voru samt engar stórframkvæmdir,“ segir Einar.

„Við bjóðum upp á íslenskan „mömmumat“ sem menn hafa greinilega mikið dálæti á. Það er svolítið gaman að því vegna þess að þetta er í einni mestu skyndibitaflóru landsins sem Selfoss er.“

Viðtökurnar vonum framar
Einar segir að þau hafi rennt nokkuð blint í sjóinn með þetta en viðtökurnar hafi verið vonum framar. „Hingað er búið að koma að borða 100–200 manns á dag og upp í 300. Við vildum láta reyna á það hvort fólk vildi koma hingað að borða, þannig að við réðum ekki mikið af starfsfólki til að byrja með. Þetta var nokkuð erfiður tími svona rétt fyrir jól en við sjáum alls ekki eftir því. Einn maður, sem reyndar var búinn að hvetja mig lengi, sagði að ég væri heigull að vera ekki löngu búinn að þessu. Hann sagði að þetta væri eins og að eiga risastórt hús við hliðina á stórfljóti þar sem að synda fram hjá þrjú þúsund laxar á hverjum einasta degi. Þú átt tólf veiðistangir en eina sem þig vantar er bara girnið. Það væri ekki meira sem okkur vantaði. Honum fannst þetta mikill heigulsháttur að vera ekki fyrir löngu búinn að kaupa girnið og veiða fiskana sem synda hérna fram hjá. Þetta er nokkuð góð samlíking. Við erum með gríðarlega stórt bílaplan og reyndar fleiri hér í kring og því lítið sem vantaði upp á. Svo er umferðin hér fram hjá gríðarlega mikil. Eins vinnur töluverður fjöldi manna hér í hverfinu í kring.“

Veitingastaðurinn kallast Mömmumatur.is og verður innan tíðar með heimasíðuna mommumatur.is. Þar á fólk að geta kynnt sér matseðla og þá möguleika sem eru í boði. Þau eru líka með facebook-síðu sem fólk getur kíkt á.

Sama verð alla daga
Spurður um hvernig mat þau bjóði upp á svarar Einar: „Við höfum boðið upp á fisk mánudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag í grunninn ásamt kjötrétti einhvers konar. Fólk getur fengið sér súpu og brauð og tvíréttaða heita máltíð. Á eftir er hægt að fá sér grjónagraut og rjómabland og svo kaffi og kex sem jafnvel er hægt að taka með sér. Á föstudögum er svo „allt í steik“ en þá er undanfarið búið að vera fullt út úr dyrum í bókstaflegri merkingu. Þar bjóðum við upp á alvöru lambasteik, purusteik og bernaise, köku með rjóma og svo er grjónagrauturinn og súpan á sínum stað. Verðið er alla daga það sama þ.e. 1.590 krónur. Við stefnum á að halda því a.m.k. þetta árið og mér sýnist við geta staðið við það. Við byggjum það á fjöldanum sem kemur að borða. Hér er búið að vera mikið af fólki. Fólk setur sjálft á diskinn og gengur einnig frá honum að máltíð lokinni. Við erum af þeim sökum með færri stöðugildi við að koma matnum út. Fólk tekur bara vel í þetta, setur hóflega á diskana og fær sér forrétti og eftirrétti.“

Þakklát fyrir viðtökurnar
„Þetta er í rauninni bæði ný og gömul hugmynd sem við létum rætast. Á sínum tíma ætluðum við að láta þetta heita Glussakaffi í anda Múlakaffis því við sáum fyrir okkur að hingað gætu glussakarlarnir komið og lagt bílunum. Við héldum okkur samt við Mömmumatur.is.

Við erum afar þakklát fyrir viðtökurnar sem við höfum fengið. Fólk kemur hingað hvaðan æfa að. Hingað eru líka að koma eldri borgarar, vinnumenn, skrifstofufólk og bara allar tegundir af fólki, alveg niður í smábörn. Við þurftum fljótlega að redda okkur barnastólum því við áttuðum okkur ekki á því að þau vildu koma með líka. Við erum rosalega ánægð með þetta. Staðurinn er opinn alla virka daga og þannig verður það bara,“ segir Einar að lokum.

Nýjar fréttir