-5 C
Selfoss

Leikfélag Selfoss 60 ára á þessu ári

Vinsælast

Leikfélag Selfoss fagnar á þessu leikári 60 ára afmæli. Félagið var stofnað að frumkvæði Kvenfélags Selfoss þann 9. janúar 1958 og var fyrsta stjórn félagsins skipuð þeim Ingva Ebenhardssyni formanni, Sigrid Österby ritara og Ólafi Ólafssyni gjaldkera. Áslaug Þ. Símonardóttir var formaður framkvæmdanefndar.

Úr sýningu á Atómstöðinni árið 1976.

Leikfélagið hefur sett upp 82 leikverk á 60 ára ferlinum ásamt fjölda annarra verkefna. Fastir liðir í starfsemi leikfélagsins síðustu ár eru nokkrir. Sett eru upp eitt til tvö stór leikverk, reynt er að hafa Hugarflug einu sinni á ári en það er nokkurs konar stuttverkadagskrá þar sem öllum er velkomið að taka þátt með leik, söng eða einhvers konar viðburði, laugardagskaffi, opið hús á Vor í Árborg og vinsæl leiklistarnámskeið fyrir börn á sumrin.

Fyrsta verk leikfélagsins á afmælisárinu var Vertu svona kona, verk eftir leikhópinn og leikstjórann Guðfinnu Gunnarsdóttur. Verkið var mjög vinsælt, hlaut góða aðsókn og færri komust á sýninguna en vildu. Sýningum á því verki var ekki lokið þegar hafist var handa við næsta leikverk vetrarins en það nefnist Glæpur og góðverk, byggt á verki eftir Anton Delmer, í leikstjórn Sigrúnar Valbergsdóttur. Áætluð frumsýning á því verki er í febrúarmánuði. Haldið var jólakvöld í desember með söngatriðum, upplestri og leikþætti. Stefnt er að Hugarflugi í maí og sérstökum afmælisfögnuði á vormánuðum sem verður auglýst síðar. Einnig er unnið að því að safna saman gögnum er varða sögu félagsins á rafrænt form sem gerir félaginu kleift að varðveita og halda betur um sögu þess.

Úr sýningu Sjóræningjaprinsessunnar árið 2009.

Leikfélagið hefur ávalt unnið í nánu samstafi með Sveitarfélaginu Árborg og nýtur þeirra forréttinda umfram mörg önnur leikfélög að hafa sitt eigið leikhús, Litla leikhúsið við Sigtún, sem félagsmenn hafa breytt úr skólahúsnæði í góða leikhúsaðstöðu frá því félagið fékk húsið til afnota árið 1987.

Leikfélag Selfoss hefur alltaf talið sig hafa mikilvægu hlutverki að gegna í sínu samfélagi, að bjóða upp á fjölbreytta og metnaðarfulla verkefnaskrá, að ala upp leikhúsáhorfendur og iðkendur.

Menning er eingöngu fólkið sem hana stundar og nýtur. Við segjum því til hamingju öll með 60 ára afmæli Leikfélags Selfoss!

Fyrir hönd stjórnar Leikfélags Selfoss.
Sigrún Sighvatsdóttir

Til að fylgjast með starfi félagsins má skoða heimasíðu félagsins leikfelagselfoss.is og fésbókarsíðu félagsins https://www.facebook.com/leikfelagselfoss/.

Nýjar fréttir