2.3 C
Selfoss

Við eigum að bjóða þetta ódýrt þannig að fólk komist á bragðið

Vinsælast

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, var spurður hvernig fyrirtækið tengist sölu á íslensku lambakjöti.
„Við byrjuðum með hægelduðum skönkum. Þetta var þannig að Norðlenska hafði samband við okkur en fyrirtækið sat uppi með lambaskanka. Þetta var vandræðavara. Enginn vissi hvað þetta var og þeir höfðu soðið þetta í súpukjöt. Þeir buðu okkur að hægelda það og grilla. Og við fórum að selja það og það sló það mikið í gegn að í dag er erfitt að fá það. Ég hef ekki getað fengið skanka síðustu ár eins og ég vildi.“

Þórarinn segir að fyrsti neistinn hafi kviknað þarna og að þar hafi þau séð fyrsta vaxtarmöguleikann í þessu. Einnig að IKEA sé á móti sóun. „Það er ótrúleg sóun í gangi í íslenskum landbúnaði og við erum að klúðra hvað er hægt að gera með erlendum ferðamönnum,“ bætir Þórarinn við.

„Við höfum verið að færa okkur upp á skaftið í lambakjötinu. Í fyrsta skipti núna í september t.d. þá prófuðum við kótelettur. Við selum 70.000 skammta í einum mánuði á sama tíma og við vorum að selja alla hina réttina. Svo vorum við með hangikjöt fyrir jólin. Ef við pössum að verðið og gæðin séu í lagi þá mokast það út. Þetta er bara dúndrandi tækifæri.“

Hvernig sérðu fyrir þér framtíð og möguleika í sölu á lambakjöti?
„Ég held að við eigum að leita aftur í tímann í þjóðlegar hefðir og við eigum að vera stolt af því. Fólk borðaði mjög góðan mat hér áður fyrr. Margt af þessum mat er til fyrirmyndar. Í staðinn fyrir að þetta sé falið eigum við að ýta þessu að fólki sem kemur til landsins. Á Ítalíu fær maður t.d. spagetti bolognasie. Af hverju ætti maður ekki að fá kjötsúpu eða kjöt í karrí hér á Íslandi? Nú eða saltkjöt eða eitthvað annað álíka? Þetta er sú framtíð sem ég sé fyrir mér í staðinn fyrir að ýta bara tacco, hamborgurum og pizzum að fólki, þó það sé fínt líka. Aðalatriðið á að vera íslenski fiskurinn og íslenska lambið.“

Hvað finnst Þórarni almenn um markaðsmál sauðfjárbænda?
„Mér finnst að við ættum að vara með lambakjötið ódýrara og selja bara miklu meira magn. Í dag er þetta verðlagt sem lúxusvara. Fyrir fólk sem er að ferðast um landið með takmarkaða peninga þá þorir það ekki að fá sér lamb. Það kostar kannski 30–40 dollara lambakjötið meðan það kostar kannski 15 dollar að fá sér hamborgara. Þá er valið svo auðvelt. Við eigum að bjóða þetta ódýrt þannig að fólk komist á bragðið.“

Nýjar fréttir