Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson, sem leikur með liði Selfoss, hefur samið við sænsku meistarana í Kristianstad. Teitur mun ganga til liðs við félagið í sumar eftir að Íslandsmótinu lýkur.
Teitur sem er 19 ára gamall, uppalinn Selfyssingur, samdi við Kristianstad til ársins 2020. Hann verður jafnframt fjórði Íslendingurinn sem leikur með félaginu. Fyrir eru þeir Arnar Freyr Arnarsson, Gunnar Steinn Jónsson og Ólafur Guðmundsson. Teitur hefur allan sinn feril leikið með Selfossi.
Á heimasíðu Kristianstad segir íþróttastjóri félagins að þeir séu mjög ánægðir með að Teitur hafi ákveðið að koma til þeirra, „þrátt fyrir áhuga frá liðum í þýsku Bundesligunni.“ Þar segir enn fremur að hann sé gríðarlega hæfileikaríkur og að þeir sjái hann fyrir sér sem framtíðarmann. „Hann er afar kraftmikill og hentar okkar leikskipulagi fullkomlega“.
Teitur Örn er sem stendur markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar en hann hefur skorað 107 mörk í 14 leikjum með liði Selfoss. Þá má geta þess að hann er hann í afrekshópi HSÍ m.a. sigraði lið Japans fyrir skömmu.