-0.5 C
Selfoss

Fjölmennur fundur á Hellu um markaðsmál sauðfjárræktarinnar

Vinsælast

Fjölmennur fundur um markaðsmál sauðfjárræktarinnar var haldinn í íþróttahúsinu á Hellu sl. laugardag á þrettándanum. Yfirskrift fundarins var „Lambakjöt er verðmæt vara“.

Fundarboðendur voru bændurnir Erlendur Ingvarsson í Skarði og Jón Bjarnason í Skipholti, ásamt Ásmundi Friðrikssyni alþingismanni. Fundurinn var haldinn í samstarfi við IKEA, Kjötkompaníið, Markaðsráð kindakjöts, Bændablaðið og sauðfjárbændur á Suðurlandi.

Fundarefnið var markaðssetning á lambakjöti og fjölbreytt tækifæri sem bíða íslensks landbúnaðar handan við hornið. Að loknum erindum var fundargestum boðið í mat með léttum veitingum, öllum að kostnaðarlausu.

Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, hóf fundinn þar sem hún flutti ávarp og fór yfir helstu málefni sauðfjárbænda um þessar mundir.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, flytur erindi. Mynd: ÖG.

IKEA seldi 70.000 kótelettur í desember
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóra IKEA á Íslandi, fjallaði um magnaðan árangur í sölu landbúnaðarafurða á veitingastað IKEA á Íslandi. IKEA hefur selt ódýrar afurðir sem hafa verið lítt vinsælar eins og til dæmis lambaskanka. Skankarnir hafa verið í boði í mörg ár, en nú leitar IKEA leiða til að nýta fleiri hluta lambsins. Í erindi Þórarins kom m.a. fram að í desember seldi IKEA 70.000 kótelettur.

Lambakjöt sem lúxusvara
Jón Örn Stefánsson, sem á og rekur veisluþjónustu og verslanir Kjötkompanísins í Hafnarfirði, hélt erindi þar sem fram koma að hann hefur náð góðum árangri í sínu markaðsstarfi og selur vandaðar steikur og fjölbreyttar gæðavörur. Jón Örn og hans starfsfólks nota aðeins hágæða kjöt og sérvalda lambahryggi. Vinsælasti rétturinn hjá Kjötkompaníinu er svokallað Lambakonfekt.

Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts og Icelandic lamb, fór yfir kynningar- og markaðsmál á íslensku lambakjöti.

Í fundarlok, að lokinni dýrindis máltíð þar sem lambakjötið fékk að njóta sín, flutti svo Hermann Árnason á Hvolsvelli gamanmál.

Nýjar fréttir