1.7 C
Selfoss

Ísólfur Gylfi hættir í vor sem sveitarstjóri Rangárþings eystra

Vinsælast

Sveitarstjórnarkosningar fara fram í lok maí 2018. Ég hef verið í sveitarstjórnar- og landsmálapólitík frá árinu 1990. Ég hef ákveðið að láta hér staðar numið og mun ekki bjóða mig fram í komandi sveitastjórnarkosningum.

Þetta hefur verið langur og viðburðaríkur tími. Fyrst sem sveitarstjóri í Hvolhreppi, þá sem alþingismaður, því næst sveitarstjóri í Hrunamannahreppi og síðan aftur sem kjörinn fulltrúi í sameinuðu sveitarfélagi í Rangárþingi eystra.

Ótrúlega margt hefur gerst hér í sveitarfélaginu á þessum tíma. Ég hef unnið með afbragðsfólki og er afar þakklátur fyrir þennan tíma, bæði sveitarstjórnarfólki og einnig starfsmönnum sveitarfélaga sem og þingmönnum og starfsmönnum Alþingis. Ég er einnig afar þakklátur því trausti sem ég hef notið.

Það eru líka viðburðarríkir tímar framundan hér í sveitarfélaginu. Gamalt baráttumál er í höfn þar sem við fáum lágvöruverðsverslun Krónunnar á Hvolsvöll sem opnar innan skamms. Nýjar skrifstofubyggingar, stjórnsýsluhús sveitarfélagsins, verða tilbúnar í vor á Austurvegi 4.Þær munu rúma alla skrifstofustarfsemi sveitarfélagins og skylda starfsemi en það húsnæði gefur mikla möguleika á mörgum öðrum sviðum. Við Hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvol er unnið af krafti að 1500 m2 viðbyggingu sem mun breyta og bæta starfsemi heimilisins. Unnið er að öðrum og síðari áfanga ljósleiðaravæðingu í dreifbýli og lýkur því verkefni á árinu 2018. Höfuðstöðvar Lögreglustjóraembættisins á Suðurlandi verða að Hlíðarvegi 16 á Hvolsvelli þar sem áður var ráðhús sveitarfélagsins. Sveitarfélagið er að kaupa viðbótarland í landi Stórólfshvols og tryggja þannig til mikillar framtíðar land vegna þéttbýlisins á Hvolsvelli.

Rekstur sveitarfélagsins gengur vel og við skuldum talsvert undir landsmeðaltali sveitarfélaga þrátt fyrir miklar framkvæmdir. Þá eru líka miklar einkaframkvæmdir í gangi í sveitarfélaginu á vegum einstaklinga og fyrirtækja. Ég er þakklátur fyrir hvatningu um áframhaldandi framboð en þessi ákvörðun mín er staðföst og óhagganleg.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Nýjar fréttir