-1.1 C
Selfoss

Fyrstu bækur Sæmundar 2018 komnar í búðir

Vinsælast

Fyrstu bækur nýs árs hjá bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi eru komnar í verslanir. Sæmundur dreifir þessa dagana tveimur harla ólíkum bókum sem báðar munu þó gleðja lestrarhesta og vera kærkomnar á skiptibókamarkaðinn. Annars vegar er um að ræða upprunaleg gerð af Pilti og stúlku og hins vegar ævisögu Stalíns eftir Edvard Radzinskij.

Piltur og stúlka
Hér um að ræða nýja útgáfu af Pilti og stúlku þar sem endurprentuð er í fyrsta sinn upprunaleg gerð bókarinnar eins og hún birtist í frumútgáfunni vorið 1850.

Útgáfan nú er í tilefni af 150 ára ártíð Jóns Thoroddsen en um leið eru 200 ár frá fæðingu skáldsins. Már Jónsson prófessor í sagnfræði sem er fjórði maður frá Jóni hafði veg og vanda af útgáfunni og ritar greinargóðan inngang um tilurð þessarar fyrstu nútíma skáldsögu Íslendinga og höfund hennar.

Í bókarauka eru birtir nokkrir textar eftir Jón Thoroddsen, þar á meðal brot úr skáldsögu sem hann lauk aldrei við. Jafnframt birtist hér áður óþekkt gerð tveggja vinsælla kvæða Jóns, Vögguvísu og Búðarvísna, sem eru í Pilti og stúlku en hafa nú fundist í eldri útfærslu í handritum.

 

Stalín – ævi og aldurtili
Ævisaga Stalíns eftir rússneska sagnfræðinginn og sjónvarpsmanninn Edvard Radzinakij þykir hin merkasta af öllum þeim fjölda ævisagna sem komið hafa út um hinn goðumlíka harðstjóra. Bókin er í senn afrakstur eigin reynslu höfundar og áratuga rannsókna sem dregið hafa fram í dagsljósið ýmis áður óþekkt atriði sögunnar. Þar má nefna samspil Stalíns og keisarastjórnarinnar á árunum fyrir byltingu, trúarlegar tilvísanir í harðstjórn Stalíns og pólitískum hreinsunum, útrýmingu lenínistanna í uppbyggingu ríkisins, kaldrifjaðan undirbúning þriðju heimsstyrjaldarinnar og að lokum frásagnir af dularfullum dauða hins goðumlíka einræðisherra.

Í bók Radzinskijs birtist Stalín ekki einasta sem takmarkalaus harðstjóri heldur einnig sem ótrúlega fær stjórnmálamaður, sem teflir flókna skák þar sem hann einn hefur stjórn á skákborðinu. Ekki bara þegar hann á við undirsetta og hrædda samstarfsmenn heima í Sovétríkjunum, heldur einnig þegar á skákborði hans eru þjóðarleiðtogarnir Hitler, Churchill og Roosevelt.

Þannig setur höfundur árás Þjóðverja á Sovétríkin í nýtt samhengi og dregur fram miskunnarlausa stjórnkænsku Sovétleiðtogans í samstarfi hans við Vesturveldin á stríðsárunum og á árunum fyrst eftir stríð. Í meðförum Radzinskijs verða hinar endalausu bakstungur og aftökur innan Kremlarmúra ekki bara frásögn af blóðþorsta og djöfulskap, heldur einnig sannfærandi lýsing á lífi þess sem er ekkert heilagt í sókn sinni eftir alræðisvaldi, jafnt heima fyrir og á heimsvísu.

Edvard Radzinskij rithöfundur er fæddur í Moskvu 1936 og hefur ritað fjölda bóka um söguleg efni. Auk bóka um Stalín hefur hann skrifað ævisögur Raspútíns og Rússlandskeisaranna Nikulásar II. og Alexanders II. Haukur Jóhannsson þýddi.

Nýjar fréttir