3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Flutningur á hjúkrunarheimili

Flutningur á hjúkrunarheimili

Flutningur á hjúkrunarheimili
Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir og Guðlaug Einarsdóttir.

Við flutning á hjúkrunarheimili verða mikil tímamót í lífi aldraðra einstaklinga og má segja að þau flokkist undir meiriháttar lífsviðburði hjá flestum.   Skipta má aðlögunarferlinu niður í þrjú tímabil. Fyrsta tímabilið, sem mörgum finnst mjög erfitt, einkennist oft af söknuði, sorg og einmanaleika , auk þess sem líkamleg einkenni eru algeng eins og meltingatruflanir og hraður hjartsláttur. Á öðru tímabilinu, sem er aðlögunartímabilið, reynir hinn aldraði í mörgum tilvikum að varpa frá sér neikvæðum tilfinningum og hugsunum , fer að mynda tengsl og að byggja upp jákvætt viðhorf til heimilisins og framtíðar.   Loka tímabilið er sáttartímabilið þar sem hinn aldraði fer að taka þátt í afþreyingu og öðlast aukið sjálfsöryggi í nýju umhverfi. Misjafnt er milli einstakinga hvað hvert tímabil er langt en ekki er óalgengt að það taki hinn aldraða þrjá til sex mánuði að jafna sig.

Fyrir aðstandendur reynist flutningur ástvinar á hjúkrunarheimili oft erfiður, sumir aðstandendur upplifa ákveðinn létti þegar hinum aldraða býðst pláss en oft upplifa þeir einnig sektarkennd og óöryggi yfir nýjum og breyttum aðstæðum.

Mikilvægt er að undirbúa flutninginn vel, gott getur verið að afla sér upplýsinga um hjúkrunarheimilið og starfsemi þess og kynna sér hverjir eru helstu tengiliðir fjölskyldunnar á heimilinu. Heimsóknir ástvina eru afar dýrmætar, bæði fyrir hinn aldraða og starfsfólk heimilisins. Þátttaka ættingja við umönnun getur einnig verið mjög jákvæð, þar sem hún hjálpar starfsfólkinu að koma sem best til móts við þarfir hins aldraða og finna aðferð sem hentar hverjum og einum best.   Einnig auðveldar þátttaka aðstandenda sjúklingi að aðlagast aðstæðum á hjúkrunarheimi.

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Guðlaug Einarsdóttir
Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir
Deildarstjórar Fossheima og Ljósheima