3.9 C
Selfoss

Leikskólinn á Laugalandi blómstrar

Vinsælast

Aðventan á Leikskólanum á Laugalandi hefur heldur betur verið skemmtileg. Börnin hafa notið þess að leika sér bæði inni í hlýjunni og úti í fjölbreyttu íslensku vetrarveðri. Börnin eru alltaf eitthvað að braska og nú síðustu vikur hafa þau m.a. verið að undirbúa jólin. Búa til jólagjafir, jólapappír, kort og ýmislegt jólaföndur. Það er alltaf nóg að gera og einkennist starfið af mikilli gleði, sköpun, söng, sögum og leik. Það er líka gaman að segja frá því að á undanförnum vikum hafa leikskólanum borist ýmsar gjafir en leikskólinn á sér marga vini og velunnara. Í síðasta mánuði gaf Bílaverkstæðið á Rauðalæk leikskólanum stórt og mikið snjallsjónvarp og einir foreldrar gáfu sleða og snjóþotu. Á Aðventuhátíð Kvenfélagsins Einingar var leikskólanum færð stór peningaupphæð úr Barnasjóði félagsins og einnig færði Kvenfélagið Framtíðin stóra upphæð sem notuð verður til að setja upp klifurvegg fyrir börnin. Þetta kemur sér allt ljómandi vel þar sem nú í haust var ný deild við leikskólann opnuð þar sem börnum í sveitinni hefur jafnt og þétt verið að fjölga. Við á Leikskólanum Laugalandi horfum bjartsýn til framtíðarinnar.

Sigrún Björk Benediktsdóttir,
leikskólastjóri.

Nýjar fréttir