Vorið 2016 hóf Samvera formlega starfsemi sína með fræðslukvöldum fyrir verðandi og nýbakaðar mæður og stuðningsaðila þeirra. Umræðuefni samverukvöldanna er kvíði og depurð á meðgöngu og eftir fæðingu. Farið er yfir einkenni, orsakir og helstu bjargráð sem konur geta nýtt sér þegar þær ganga í gegnum þær miklu breytingar sem eiga sér stað þegar nýtt barn lítur dagsins ljós, bæði líkamlega og andlega. Þær Hugrún Vignisdóttir, sálfræðingur og Katrín Þrastardóttir, BS í sálfræði og ART-ráðgjafi segja viðtökur fræðslufyrirlestranna hafa verið afar góðar. „Fólk á öllum aldri hefur komið og hlýtt á fræðsluna bæði foreldrar og svo hafa einnig ömmur komið útfrá eigin reynslu og til þess að geta stutt við bakið á sínum dætrum á þessum merkilega og mikilvæga tíma. Það eru allir velkomnir og ekki nauðsynlegt að vera barnshafandi eða með hvítvoðung. Það er nefnilega svo að bæði fæðingarþunglyndi og kvíði getur komið upp mörgum mánuðum og jafnvel árum eftir að barnið fæðist og ekki allir sem tengja það við fæðingu barnsins. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að feður geta einnig upplifað fæðingarþunglyndi og kvíða. Þess vegna er mikilvægt fyrir foreldra og aðstandendur að þekkja til einkenna, orsaka og bjargráða til þess að geta nýtt sér þegar þörfin er fyrir hendi“ segja þær stöllur. Næsta samverukvöld verður haldið mánudaginn 8.janúar kl.20:00 í fundarsal í kjallara HSU (Heilbrigðisstofnunar Suðurlands). Nánari upplýsingar um starfsemi Samveru er hægt að finna á facebook síðu félagsins https://www.facebook.com/samveraselfossi/ eða með því að senda tölvupóst á samvera2016@gmail.com.
Samvera er félag sem eingöngu er rekið á styrkjum og frjálsum framlögum frá kvenfélögum og öðrum á svæðinu. Vilja þær Hugrún og Katrín senda sérstakar þakkir til eftirfarandi kvenfélaga fyrir stuðninginn sem Samveru hefur verið veittur. Án þeirra væri ekki möguleiki að halda starfseminni áfram; Kvenfélagið Bergþóra, Kvenfélag Gaulverjabæjarhrepps, Kvenfélagið Hallgerður, Kvenfélag Hraungerðishrepps, Kvenfélag Laugdæla, Kvenfélag Selfoss, Kvenfélagið Skeiðahreppi, Kvenfélag Villingaholtshrepps og Samband Sunnlenskra kvenna.
Hugrún Vignisdóttir og Katrín Þrastardóttir