4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Eitt skref af ótal mörgum

Eitt skref af ótal mörgum

Eitt skref af ótal mörgum
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG í Suðurkjördæmi

Undir jól og áramót ár hvert hyggja menn að næsta ári og hafa oftast uppi góðar vonir. Á yfirstandandi ári urðu stjórnmálamenn og kjósendur að takast á við stjórnarslit og nýjar kosningar. Í desember tókst að setja saman nýja ríkisstjórn með nokkuð óvæntu mynstri, jafnvel mjög umdeildu meðal kjósenda og félaga flokkanna.

Félagsmálastjórn

Stjórnarsamningurinn er vissulega sáttmáli; málamiðlun milli mjög ólíkra, jafnvel andstæðra, stjórnarmiða og stefna. Félagshyggja er þar með sterkum svip en allmörg málefni látin liggja milli hluta eða þau sett í skoðun. Samsteyputjórnin verður til við sérstakar aðstæður þar sem pólitískar línur og skilaboð reyndust flókin. Lögð verður að þessu sinni aðaláhersla á að koma af verulegum þunga á móts við ákall fólks um úrbætur lífsskilyrða eftir neyðarviðbrögð vegna fjámálahrunsins í fyrstu og svo of hægar endurbætur eftir þau. Verkefnin eru ærin, hvort sem horft er til heilbrigðis-, skóla- eða almannatryggingarmála, til rannsókna, nýsköpunar, byggðamála, jafnréttis eða gegnsæis í stjórnkerfi og hagsmunatengslum, hvað þá launamála, atvinnuvega og innviða í samgöngum.

Inn í flest öll fyrrgreind málefnasvið fléttast umhverfismál og þá sér í lagi aðgerðir í loftslagsmálum, allt frá orkuskiptum í samgöngum og útgerð til endurheimta landgæða og bindingar kolefnis.

Sjáum til

Verkin tala og koma mun í ljós hvort vonir fólks, sem m.a. má lesa að dálitlu leyti úr fyrstu viðhorfskönnunum, gangi eftir. Félagshyggjufólk einsetur sér að vera málsvari hins vinnandi manns og gerir sitt besta til að svo fari á næstu árum. Til langrar framtíðar þörfnumst við nýs hagskerfis sjálfbærni, jöfnuðar og hófsemdar, grænna og mannúðlegra viðmiða, og jafnvægis milli náttúrunytja og náttúruverndar. Ég tel okkur taka smáskref í þá átt með samstarfi þriggja ólíkra flokki á Alþingi að þessu sinni. Takist það bærilega, er tíma á þingi eins vel varið og kostur er í núverandi stöðu.

Lesendum og öllum íbúum Suðurkjördæmis sendi ég hlýjar hátíðarkveðjur.

Ari Trausti Guðmundsson
Þingmaður VG í Suðurkjördæmi