4.5 C
Selfoss

Skógasafn – lifandi safn

Vinsælast

Nú á miðri aðventu er tilvalið að taka stutt frí frá dagsins önn og jólaundirbúningi og kíkja í heimsókn á Skógasafn, því hér er margt að sjá. Safnið, sem er sameign Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga, var stofnað 1949 og er því að nálgast sjötugt. Um er að ræða þrjár safndeildir, byggðasafn, húsasafn og samgöngu- og tækniminjasafn. Skógasafn er stærsta og fjölsóttasta safn á landsbyggðinni, safngestir eru rúmlega 70 þúsund það sem af er þessu ári. Safneignin telur um 20.000 muni, stóra og smáa, frá smágerðri nælu frá víkingaöld til vetnisknúins strætisvagns frá byrjun 21. aldar og allt þar á milli. Einungis höfuðsafn íslenskra minjasafna varðveitir stærri og fjölbreyttari safnkost, en Skógasafn hefur einmitt tekið að sér varðveislu margra gripa frá sjálfu höfuðsafninu, Þjóðminjasafni Íslands.

Elstu safngripirnir í eigu Skógasafns eru frá landnámsöld, axarblöð, perlur og nælur. Nokkuð yngri eru ýmsir jarðfundnir munir frá miðöldum og má þá sérstaklega nefna marga muni frá Stóru-Borg sem aðalfrumkvöðull safnsins, Þórður Tómasson, fann í uppblásnum rústum miðaldabæjarins. Það leiddi til þess að Þjóðminjasafn Íslands hóf fornleifauppgröft á Stóru-Borg árið 1978 sem stóð allt til ársins 1990. En merkilegasti safngripurinn er án efa áttæringurinn Pétursey, byggður 1855 af bændunum Jóni Ólafssyni í Pétursey og Sæmundi Bjarnasyni á Vatnsskarðshólum. Pétursey, sem er elsta áraskip á Suðurlandi, var lengi róið frá Jökulsá á Sólheimasandi úr svokölluðu Maríuhliði. Síðasti eigandi Péturseyjar var Jón Halldórsson kaupmaður í Suður-Vík, er gaf hana safninu. Pétursey er með brimsandalagi, en það byggingarlag einkenndi öll áraskip á Suðurlandi fram um aldamótin 1900.

Hringur Þrasa.
Hringur Þrasa.

Árið 1955 var fyrsta bygging safnsins tekin í notkun, en fram að því hafði safnið verið til húsa í Skógaskóla. Núverandi aðalbygging safnsins var vígð 1995, teiknuð að arkitektunum Stefáni Erni Stefánssyni og Grétari Markússyni. Þetta hús varðveitir kjarna safnsins og þar á meðal er áraskipið Pétursey sem stendur með fullum seglum í sýningarsal sem er sérhannaður utan um skipið.

Torfbær Skógasafns samanstendur af nokkrum torfhúsum sem Þórður Tómasson fyrrverandi safnstjóri flutti að Skógum og endurbyggði og á lóð safnsins svo úr varð myndarlegur torfbær. Samsetningin er vel heppnuð og er torfbær þessi fagurt dæmi um sunnlenskan bæ frá miðri 19. öld. Þessi burstabær sem er aðal einkenni Skógasafns, er gott dæmi um húsagerð þess tíma. Hann ber vitni um aðbúnað fólks fyrr á tímum og horfna menningu forfeðra okkar, gömlu bændamenninguna.

Gamli torfbærinn í Skógum.
Gamli torfbærinn í Skógum.

En hin húsin í húsasafninu eru einnig merkileg þótt yngri séu. Barnaskólinn frá Litla-Hvammi, gjöf Sigþórs Sigurðssonar velunnara safnsins, Holt á Síðu, fyrsta timburhús í V-Skaftafellssýslu, skemman frá Gröf í Skaftártungu frá um 1840, bóndabærinn frá Skál á Síðu með sinni fjósbaðstofu sem er algjörlega einstök og að lokum Skógakirkja, timburkirkja í nítjándualdarstíl, allt eru þetta merkilegar byggingar sem hafa ótvírætt varðveislugildi. Segja má að hvert hús sé sjálfstæð sýning, enda eru þau öll full af húsgögnum, myndum, búsáhöldum og öðrum munum sem tilheyrðu heimilishaldi þeirra tíma. Það er eins og íbúarnir hafi rétt brugðið sér af bæ eða kannski farið til kirkju. Í húsasafninu skyggnist gesturinn inn í fortíðina, löngu fyrir tíma vélvæðingar og tækniframfara 20. aldar sem finna má í nýjustu deild Skógasafns, Samgöngusafninu.

Samgöngusafnið í Skógum var opnað í nýju húsi árið 2002. Þar getur að líta þróun samgangna og tækni á Íslandi á 19. og 20. öld. Hlutverk þess er að safna, varðveita og sýna muni og minjar um þróun samgangna og tækni í landinu, allt frá ferðalögum á hestum til rafrænna samskipta dagsins í dag. Það spannar því meira en heila öld tækniþróunar og framfara sem urðu hér á landi með tilkomu bifreiða, síma, rafmagns og bættra samgangna á fyrri hluta síðustu aldar.

Gamli Fordinn sem varð 100 ára.
Gamli Fordinn sem varð 100 ára.

Sýningarrýmin eru alls 11 á 1200 m2 svæði. Sýningamunirnir koma víðsvegar að. Margir eru í eigu opinberra aðila sem hafa lagt safninu lið. Þannig má segja að Samgöngusafnið sé samstarfsverkefni Skogasafns og þessara aðila en þeir eru Þjóðminjasafnið, Vegagerðin, Rarik, Íslandspóstur‚ Síminn, Míla, Landhelgisgæslan og Landsbjörg. Allir þessir aðilar lögðu til muni á sýningarnar, en Skógasafn tekur að sér sýningahald og varðveislu munanna. Ein deildin er helguð fjarskiptum. Þar er að finna mjög stórt einkasafn fjarskiptatækja og NMT-síma, gjöf Sigurðar Harðarsonar til safnsins.Það er því margt að sjá og skoða í Skógum og sýningamunirnir margbreytilegir.

Eftir að Samgöngusafnið var opnað varð nokkurt hlé á uppbyggingunni. En árið 2009, í miðri kreppu eftir hrunið, var hadið áfram. Nú var komið að geymslu- og verkstæðisbyggingu fyrir safnmuni sem mikil þörf var fyrir. Á næstu tveimur árum reis myndarlegt stálgrindarhús, 1380 m2 að grunnfleti. Stórt verkstæði er í suðurenda, en geymslusalur fyrir vélar og tæki er í norðurenda hússins og 380 m2 geymsluloft fyrir smærri hluti.

Samgöngusafnið í Skógum.
Samgöngusafnið í Skógum.

En safnið heldur áfram að eflast og stækka. Þann 1. september sl. var vígður nýr móttökusalur við aðalbygginguna. Með þessari framkvæmd hefur aðstaða gesta og starfsfólks batnað til muna og safnið er nú betur í stakk búið til að takast á við áframhaldandi fjölgun ferðamanna.

Skógasafn er opið alla daga ársins nema á aðfangadag jóla. Verið velkomin.

Við óskum Sunnlendingum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

 

Nýjar fréttir