-8.3 C
Selfoss

Piparkökuhús geta verið alls konar

Vinsælast

Á árum áður tók Elva Dögg þátt í mörgum samkeppnum um gerð piparkökuhúsa með góðum árangri. Hér deildir hún einfaldri uppskrift fyrir lesendur Dagskrárinnar.

Piparkökuhús

Þessi uppskrift er mjög bragðgóð og hentar vel í piparkökuhús sem og í piparkökur þar sem hún verður mjög hörð.

Uppskrift að piparkökuhúsi:
5–600 gr. hveiti
150 gr. púðursykur
1/2 dós lítil sýrópsdós
1 egg
1/2 tsk engifer
3 tsk kanill
1 tsk negull
2 tsk matarsódi

Öll hráefni eru sett í pott nema hveiti og egg. Hitað við meðalhita þar til allt er vel blandað. Hveiti og eggjum er síðan bætt saman við og hnoðað vel. Byrja á því að setja 500 grömm af hveiti og bæta við þar til deigið er passlega stíft til að fletja út.

Bakað við 180°c þar til fullbakað.

Það er auðvelt að gera sitt eigið snið af alls konar piparkökuhúsum af öllum stærðum og gerðum. Best er að gera snið fyrst úr pappír og skera út glugga og hurðar áður en bakað er.

Brjóstsykurgluggar:
Veljið t.d. ávaxtabrjóstsykur og myljið. Þegar piparkökuhúsið er nánast bakað, er það tekið út og mulningurinn er settur í gluggaopin, sett aftur inn í, oft í augnablik, eða þar til allt er bráðið saman. Athugið að það þarf að fylgjast vel með allan tímann.

Mjög auðvelt er að klæða húsin með sykurmassa og búa til harða múrsteina og fleira til að auka á ævintýraljómann og ekki síst ef fólk vill senda húsin í piparkökuhúskeppni.

Hægt er að klæða piparkökuhúsin með svokölluðum sykurmassa. Hann má annaðhvort búa til eða kaupa í bakaríum og kökugerðarbúðum.

Þannig er farið að:
Áður en húsin eru sett saman er sykurmassinn flattur út í þeim lit sem vill og gert mynstur í hann ef vill, t.d. múrsteinamynstur. Piparkökurnar eru svo smurðar með sýrópi og sykurmassinn lagður ofan á. Látið taka sig í um hálftíma og hliðar húsanna svo límdar saman með bráðnum sykri eða Royal Icing (erfiðara, en fallegra) Samskeytin eru svo falin með sykurmassa. Þetta heldur og tekur sig bara betur með tímanum og harðnar.

Ýmiskonar fígúrur, múrsteinar í stíga og annað er mjög auðvelt að gera með svokölluðu „Sugar paste“.

Þessi massi verður grjótharður og er nánast hægt að gera hvað sem er úr honum. Hann má kaupa, en auðvelt er að gera hann sjálfur og mun ódýrara.

Uppskrift:
220 gr flórsykur
30 ml vatn
1/2 tsk matarlímsduft
1/2 tsk kornsýróp eða glúkósa.

Setjið matarlímsduftið í vatnið ásamt sýrópi.  Látið bíða í 10 mín og hitið svo þar til allt er uppleyst. Blandið saman við flórsykur.  Gott er að gera þetta með höndunum, en nota á palmín feiti á hendur fyrst sem og á borðið til að hnoða á.  Feitin kemur í veg fyrir að allt festist við.  litið að vild og geymið í plastpoka því þetta harðnar fljótt.  Hægt er að gera hvað sem er úr þessu, allt frá blómum í múrsteina og náttúrsteina.    Ég gerði náttúrustéttar, múrsteina á kanta húsanna og í kringum gluggana, ljósastaura og allar fígúrur.

Snjór:
450 gr flórsykur
3 eggjahvítur
1 tsk cream of tartar.

Þeyta vel í 5 mín og sprautið snjó með víðum stút  og grýlukerti á húsin með mjóum.

Þykkur og harður snjó og annað skraut:
4 bollar flórsykur
3 msk meringue powder frá Wilton
5 msk heitt vatn.

Þeyta í 5 mín og sprauta. Heldur sér mjög vel og hægt að sprauta td. jólatré utan á ísform með stjörnustút og setja skrautkúlur utan á  áður en allt fer að þorna. Verður grjóthart og notað líka til að sprauta blóm.

Svo er bara að prófa sig áfram!

Elva Dögg Þórðardóttir
Skyrgerðinni, Hveragerði

Nýjar fréttir