3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Tækifæri velgengninnar

Tækifæri velgengninnar

0
Tækifæri velgengninnar
Guðmundur Ármann Pétursson, sveitarstjórnarmaður.

Sveitarfélögin í Árnessýslu standa vel, það er gróska, það er uppbygging og það eru „allir glaðir“. Við höfum sem samfélag tvo valkosti; annars vegar að lifa í núinu og njóta þess að allt gengur vel og að vera ekkert að hreyfa of mikið við hlutunum. Hins vegar höfum við tækifæri á að nýta velgengnina til að bæta stöðu okkar, gera breytingar, undirbúa okkur fyrir framtíðina og auka lífsgæði okkar til lengri tíma.

Í samvinnu við þau átta sveitarfélög sem eru í Árnessýslu hefur KPMG unnið mjög vandaða og góða skýrslu um mögulega sameiningu sveitarfélaganna átta í Árnessýslu (Árborg, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Ölfus) í eitt sveitarfélag. Skýrsla þessi var nýlega kynnt á opnum fundi í Tryggvaskála á Selfossi og er hægt að nálgast skýrsluna m.a. á heimasíðu undirritaðs; gudmundurarmann.is.

Á þeim fundi var þeirri hugmynd velt upp hvort ekki væri hægt á sama tíma og kosið verður til sveitarstjórnar á næsta ári að leggja fyrir eina spurningu, sem væri könnun og ekki bindandi. Sú spurning væri; Ert þú fylgjandi því að sveitarfélögin í Árnessýslu sameinist í eitt sveitarfélag?

Sameining sveitarfélaga verður ekki eitt af stóru málunum í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þrátt fyrir það verður það eitt mikilvægasta verkefni þeirra sem kjörnir verða fulltrúar í sveitarstjórn næsta vor. Aukin verkefni frá ríki til sveitarfélaga, aukin ábyrgð sveitarfélaga m.a. í skipulagsmálum, í verkefnum er varða ferðamenn, félagsleg verkefni og almennt auknar kröfur á stjórnsýsluna. Í öllum þessum málum og fleirum til mun þörfin og krafan um sameiningu sveitarfélaga koma fram.

Í sameinaðri Árnessýslu búa í dag 5% af heildaríbúafjölda landsins, heildarflatamál svæðisins er rétt um 9% af heildarflatamáli Íslands. Árnessýsla er eitt helsta landbúnaðarhérað landsins, margar helstu náttúruperlur þjóðarinnar og helstu áfangastaðir ferðamanna eru innan sýslunnar. Öflugir og ólíkir þéttbýlisstaðir (Selfoss, Hveragerði og Þorlákshöfn) skapa ólík tækifæri til búsetu og atvinnu. Minni þéttbýlisstaðir í uppsveitum og þorpin við ströndina eru perlur sem sem eiga fjölda möguleika til að eflast. Sameinuð Árnessýsla sem eitt skipulagssvæði mun t.d. gagnast þéttbýlisskjörnunum í uppsveitum og þorpunum sérstaklega vel og hjálpa þeim að vaxa og eflast. Það mun einnig betur tryggja að ákveðin svæði og/eða þéttbýliskjarnar verði síður útundan.

Að byggja upp og efla rafræna stjórnsýslu, jafnar og bætir aðgengi allra íbúa að stjórnsýslunni. Við sameiningu myndi allur sá fjöldi samstarfsverkefna sem nú eru milli mismunandi sveitarfélaga á svæðinu færast undir eitt sveitarfélag. Það verður því bein pólitísk ábyrgð á þeim verkefnum sem er ekki í dag, auk þess sem aðgengi og upplýsingar sveitarstjórnarmanna og almennings að þeim verður betra og lýðræðislegra.

Sameining sveitarfélaga í Árnessýslu er ekki einkamál sveitarstjórnarmanna. Nýtum meðbyrinn til að gera gott samfélag betra og sterkara til að takast á við framtíðina.

Guðmundur Ármann Pétursson, sveitarstjórnarmaður.