-4.8 C
Selfoss

Mér fannst bókin mjög heppin að ég skildi finna hana

Vinsælast

Lestrarhestur Dagskrárinnar Jónína Sigurjónsdóttir er hársnyrtimeistari sem býr í Hveragerði og vinnur á Dvalarheiminu Ási, HNLFÍ og smávegis í Rósagarðinum. Hún er fædd og uppalin á Selfossi en hefur búið í flestum bæjarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og á Höfn í Hornafirði. Hún á þrjú börn, tvö tengdabörn og þrjú barnabörn. Aðspurð segist Jónína helst vilja „verja frítímanum sínum með fjölskyldu og vinum, þó ég kunni afskaplega vel við að vera ein í eigin félagsskap, er í skátunum, aðallega í fullorðinsstarfi, hef gaman af að snuddast í garðinum, vera í sumarbústað fjölskyldunnar í Landsveitinni, fara í göngutúra, gera handavinnu, lesa og skoða heiminn.“

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég var að klára afskaplega rómatíska bók sem heitir Síðasta orðsending elskhugans eftir breska rithöfundinn Jojo Moyes. Ég bjóst við smávegis tilfininga rússíbana því áður hafði ég hlustað á lestur Maríu Pálsdóttur á annarri bók höfundarins Ég fremur en þú, þá var ég að gera skemmtilega handavinnu og vildi láta lesa eitthvað notalegt fyrir mig á meðan en fékk ofnæmi í augun sem blotnuðu alltaf svo lítið gekk með hannyrðirnar. Orðsendingin rann hins vegar ljúft og létt, stundum hefur maður bara gott af að lesa falleg orð um fólk sem er gott hvert við annað.

Á náttborðinu mínu eru tvær aðrar bækur sem ég glugga stundum í, önnur er Gæfuspor gildin í lífinu, eftir Gunnar Hersvein. Þessa mjúku, grænu harðspjaldabók hirti ég úr einhverjum rusladalli eða nytjagámi, algjörlega óopnaða og mér fannst bókin mjög heppin að einmitt ég skildi finna hana. Lífsgildin hans Gunnar Hersveins ættu að vera á hverju náttborði og ávallt lesin fyrir og eftir svefn þá verður heimurinn betri. Hin bókin er ljóðabókin Heim aftur eftir Sigurð Skúlason sem ég fann í bókasafni HNLFI, gluggaði í hana og ljóðin hittu mig á hressandi hátt með glettni og gálgahúmor eins og og í ljóðum Steins Steinars. Svo eignaðist ég bókina las hana spjaldana á milli og efast um að Sigurði hafi verið nokkurt grín í huga þegar hann skrifaði ljóðin, en ég ákvað að leitast við að halda í mína fyrstu upplifun af bókinni og er viss um að honum finnst bara gott ef ljóðin fá mig til að brosa.

Svo er ég þessa dagana á skemmtilegu námskeiði ásamt vinnufélögum mínum á Ási um Eden hugmyndafræðina sem miðar að því að skapa aðstæður á öldrunarheimilum sem draga úr einmannaleika og leiða. Að því tilefni fékk ég mér nokkrar bækur um öldrun og heilabilun meðal annars bókina hennar Kristjönu Sigmundsdóttur Ósögð orð og hlakka til að lesa hana.

Áttu þér áhugaverða lestrarminningu?
Ég á eina mjög sterka. Ég er níu ára gömul, það er sumar og sól úti, ég ligg á dívan inn í herbergi og les í litlu þunnu kveri. Heyri í krökkunum úti og er alveg að fara út til þeirra, ætla bara að lesa aðeins meira. Bókin er um stúlku sem er beitt órétti og sópurinn og tuskan lifnuðu við og hjálpuðu henni að þrífa, einhvers konar öskubuskusaga og í sjálfu sér ekkert merkileg en það sem er sterkt í minningunni er sigurinn þegar ég kláraði heila bók. Ég var á tíunda ári og leiðin með bókstöfunum að þessum áfanga í lífi mínu hafði kostað mikinn pirring og mörg tár. Mörgum árum síðar var hugtakið lesblinda fundin upp.

En hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég les á netinu og núna er ég mest að lesa um efni sem tengist námskeiðinu sem ég var á. Svo vafraði ég um Öræfasveitina, er svolítið að hugsa til fólksins þar um þessar mundir. En ég les alltaf bækur þegar ég leggst í rúm á kvöldin. Byrja jafnvel á einhverju í þyngri kantinum og tek svo krimma eða eitthvað léttara bara að njóta. Stundum tek ég slatta af bókum í poka af bókasafni HNLFÍ, allskonar bækur sem ég les eða bara glugga í. Oft finn ég bækur sem virðast ekkert áhugaverðar en koma svo skemmtilega á óvart við nánari kynni. Ég eyði ekki of miklum tíma í innihaldsrýrar eða leiðinlegar bækur en það er samt gaman að vita að þær séu til.

Áttu þér uppáhalds barnabók?
Sögur Guðrúnar Helgadóttur verða alltaf í uppáhaldi hjá mér. Þær fjalla um manneskjur og mennsku, gleði og sorgir. Guðrún hefur lag á að skrifa bækur sem höfða til allra hvar sem þeir eru staddir á þroskabrautinni. Svo gerir hún ekki grín að börnunum í sögunum. Við hlæjum með persónum hennar en ekki að þeim. Svo get ég nefnt Bróðir minn ljónshjarta sem er saga sem þroskast með okkur. Við lesum hana eða heyrum sem börn, skiljum á þann hátt sem aldur okkar og þroski býður upp á en smátt og smátt fer sagan að sýna okkur sitthvað fleira. Þegar við höfum eignast börn, séð þjáningu og dauða, saknað og misst þá verður skilningur okkar á Nangijala og dauðanum allt annar og hver veit nema það renni upp fyrir okkur einhvern daginn að þetta er allt dagssatt.

Er einhver bók sem hefur haft sérstök áhrif á þig?
Það eru í raun margar bækur. Ég gæti trúað að áhrifin færu dálítið eftir því hvar maður er staddur í lífinu þegar bókin er lesin. Sögur þurfa rými í huga okkar, stundum erum við tilbúin að gefa þeim það stundum ekki. Ég bjó um tíma á Höfn í Hornafirði, gekk í framhaldsskóla og tók ýmsa áfanga, marga bráðskemmtilega íslenskuáfanga flesta undir leiðsögn Zophoníasar Torfasonar. Við lásum meðal annars Meistarann og Margarítu sem ég hafði áður lesið og fannst lítið til henar koma en þarna las ég sögulokin almennilega sem síðan eiga örugglega eftir að fylgja mér lífið á enda. Einnig Sölku Völku sem ég ætlaði reyndar aldrei að þora að lesa því ég hélt hún væri svo ljót. Núna hugsa ég oft til Sölku Völku og alltaf með hlýju og virðingu og þakklæti til höfundarins fyrir að skrifa svona flotta sögu fyrir mig. Að lokum má nefna að Uppvöxtur litla trés eftir Forrest Carter á alveg sérstakan stað í huga mínum. Á bókakápu segir að höfundur hafi látist1979 og ekki lifað það að sjá vinsældir sögu sinnar sem fór hægt af stað en hafi smá saman „ratað til sinna“. Ég er mjög þakklát fyrir að þessi saga rataði til mín.

Nýjar fréttir