7.8 C
Selfoss

Stuðningur við frumkvöðla í ferðaþjónustu

Vinsælast

Tvö sunnlensk fyrirtæki tóku á þessu ári þátt í Startup tourism, sérstökum viðskiptahraðli fyrir nýjar hugmyndir og fyrirtæki í ferðaþjónustu. Fyrirtækin eru Sólvangur – Icelandic Horse Center, sem er ekta íslenskur hestabúgarður, og The Cave People – Laugarvatnshellar endurgerðir.

„Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall sem er sniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Markmið verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar á sviði ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum og stuðla að dreifingu ferðamanna víðs vegar um landið, allan ársins hring,“ segir Svava Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Startup Tourism.

„Ár hvert eru tíu fyrirtæki valin til þátttöku. Þau fá aðgang að fullbúnu skrifstofurými meðan á verkefninu stendur og gefst kostur á að njóta fræðslu og þjálfunar og þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta, lykilaðila á sviði ferðaþjónustu og annarra sérfræðinga og stjórnenda þeim að kostnaðarlausu“.

Umsóknarfrestur fyrir næsta hraðal, sem hefst 15. janúar og fer fram í Reykjavík, er til 11. desember nk. Bakhjarlar Startup Tourism eru Isavia, Íslandsbanki, Bláa Lónið og Vodafone. Icelandic Startups sér um framkvæmd verkefnisins í samstarfi við Íslenska ferðaklasann.

Nýjar fréttir