Fyrirtækið ,Sólvangur – Icelandic Horsecenter, tók þátt í Startup Tourism, sérstökum viðskiptahraðli fyrir nýja hugmyndir og fyrirtæki í ferðaþjónustu.
Sólveig Pjetursdóttir stofnandi Sólvangs var spurður hvað fyrirtækið geri og hvenær hugmyndin hafi vaknað.
„Hestamiðstöðin á Sólvangi eða Sólvangur Icelandic Horse Center er fjölskyldurekinn hestabúgarður við Eyrarbakka, þar sem boðið er upp á fjölbreytta og fræðandi hestatengda afþreyingu fyrir ferðamenn jafnt sem Íslendinga. Þar má nefna reiðkennslu, en hún spannar allt frá því að teyma undir börnum í það að þjálfa keppnisknapa á efstu stigum, ásamt því að vinsælt er að koma í heimsókn í hesthúsið og kynnast hestunum. Í júlí 2017 opnaði fjölskyldan kaffihús og sértæka minjagripaverslun tengda íslenska hestinum í hesthúsinu á Sólvangi sem opin er alla daga kl. 11–17. Þar er hægt að fylgjast með hestum við leik og störf í gegnum glugga, en öll hönnun staðarins einkennist af hestum. Á Sólvangi eru einnig boðið upp á gistingu í smáhýsum.
Við vorum búin að vera hugsa lengi um hvernig við gætum aukið þjónustu við ferðamenn og náð meiri framlegð úr hestunum okkar. Ég var svo að klára MBA nám við Háskóla Íslands í vor og þegar ég byrjaði að vinna að lokaverkefninu mínu fór hugmyndin að mótast fyrir alvöru. Ég notaði drögin að verkefninu til að sækja um hjá Startup Tourism og þá fóru hjólin aldeilis snúast,“ segir Sólveig.
Hvernig gagnaðist Startup Tourism hraðallinn ykkar vegferð?
„Ég var með frábæra hugmynd í kollinum og mikla sérþekkingu á hestamennsku og hestatengdri ferðaþjónustu, en mig skorti þor og þekkingu til að stofna eigið fyrirtæki. Með því að taka þátt í Startup Tourism hraðlinum fékk ég alla þá aðstoð, verkfæri og tengslanet sem mig skorti til að láta draum minn verða að veruleika. Við fengum góða vinnuaðstöðu til að vinna að verkefninu og mikla fræðslu. Einnig fengum við tækifæri til að eiga einkafundi við fjöldan allan af sérfræðingum sem gátu gefið góð ráð við þróun viðskiptahugmyndarinnar. Þá var ómetanlegt að geta ávallt leitað til hins öfluga starfshóps verkefnisins sem hvatti okkur áfram til hins ítrasta og var ávallt tilbúinn að aðstoða okkur á einn eða annan hátt. Síðast en ekki síst var frábært að kynnast hinum þátttakendunum sem allir voru með sérþekkingu á einhverju sviði og hópurinn varð þéttur og samstilltur.“
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
„Okkar markmið er að færa fólk nær íslenska hestinum í gegnum fræðslu og bjóða fólki að upplifa íslenska hestinn á raunverulegu hrossaræktarbúi þar sem fagfólk er við störf og gæða hross eru notuð við kennslu. Við stefnum á að auka gistirými á Sólvangi til þess að geta boðið fjölskyldum og hópum upp á sérsniðin frí í tengslum við hesta. Þá er kaffihúsið og minjagripaverslunin í mikilli sókn og við hlökkum til að taka á móti enn fleiri ferðamönnum á komandi misserum.“