2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Bókarkynning í Eldfjallamiðstöðinni á Hvolsvelli

Bókarkynning í Eldfjallamiðstöðinni á Hvolsvelli

0
Bókarkynning í Eldfjallamiðstöðinni á Hvolsvelli
Gísli Pálsson prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Bókarkynning verður í Eldfjallamiðstöðinni, Lava Center, á Hvolsvelli í dag þriðjudaginn 5. desember kl. 17. Þar verður kynnt bókin Fjallið sem yppti öxlum: Maður og náttúra eftir Gísla Pálsson.

Fjallið sem yppti öxlum fléttar saman sjálfsævisögulegum stefum og umræðu um náttúru og umhverfismál. Höfundur fjallar um bernsku sína í nágrenni við iðandi eldfjöll (í Vestmannaeyjum), rætur sínar undir Eyjafjöllum og í Fljótshlíð, sumardvöl hjá ættingjum í Landeyjum, skjálfta í jörðu og mannlífi, aðdráttarafl kletta og fjalla, dælur, bombur og geirfugla og gosminjasöfn stór og smá, mannlegt drama andspænis náttúruvá – og, ekki síst, þær ógnir sem steðja að lífríki jarðar. Glíma manna við jarðelda, ekki síst í Heimaeyjargosinu árið 1973, opnar honum sýn inn í vanda jarðarbúa á svokallaðri mannöld sem einkennist af skaðlegum og hugsanlega óafturkræfum áhrifum manna á bólstaði sína og jörðina sjálfa. Gæti maður, spyr Gísli, átt samleið með fjöllum og hraunbreiðum? Myndað náið samband við atburði í jarðsögunni, sambærilegt við þann félagsskap sem margur tengir við fæðingardag og stjörnumerki?

Á kynningunni í LavaCentre mun Gísli sýna skyggnur með myndum úr bók sinni, segja frá efni bókarinnar og ritun hennar, lesa brot úr texanum – og, ef óskað er, svara spurningum áheyrenda og árita bækur sem verða til sölu á staðnum.

Gísli Pálsson er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur fjallað um mörg viðfangsefni, oft á mörkum ólíkra fræðigreina, en undanfarin ár hefur hann einkum látið lífheiminn og umhverfismál til sín taka. Hann hefur gert sér far um að miðla fræðum sínum til almennings og meðal annars unnið að nokkrum heimildamyndum.