1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Sunnlenskt verkefni í tilefni 100 ára afmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018

Sunnlenskt verkefni í tilefni 100 ára afmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018

0
Sunnlenskt verkefni í tilefni 100 ára afmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018

Fyrir ári skipaði Alþingi nefnd til að undirbúa hátíðahöld í tilefni 100 ára afmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018. Þann 1. desember sl. var haldin kynning í Listasafni Íslands á þeim verkefnum sem afmælisnefnd var falið samkvæmt þingsályktun þar um.

Dagurinn 1. desember 2017 markar upphaf 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Skrifað var undir samning um stærsta verkefni ársins í þingsályktuninni, sýningu á handritum, listaverkum og skjölum sem minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar. Einnig voru kynnt þrjú önnur verkefni að viðstöddum fulltrúum þeirra verkefna.

Umhverfis-Suðurland
Eitt af þátttökuverkefnunum var verkefnið Umhverfis-Suðurland. Hugmyndin að verkefninu kom fram á nýliðnu ársþingi SASS en hún gengur út að farið verði í sameiginlegt sunnlenskt átak í almennri tiltekt og umhverfisþrifum í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands – áhersla verði lögð á skynsamlega flokkun og endurvinnslu og SASS hafi forgöngu um þetta mál fyrir hönd Sunnlendinga.

Umhverfis-Suðurland er átaksverkefni í umhverfismálum í landshlutanum og verður í gangi allt árið 2018. Árið verður brotið upp með umhverfisviðburðum s.s. degi umhverfisins í apríl, Norræna strandhreinsunardeginum í maí, vorhreinsun á Suðurlandi í maí og júní, degi íslenskrar náttúru í september, hausthreinsun á Suðurlandi í september, nýtniviku í nóvember og alþjóðlega klósettdeginum í nóvember.

Umhverfis-Suðurland verkefnið verður jafnframt eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands. Markmiðið er að fara í sameiginlegt átak á Suðurlandi í umhverfismálum jafnt í tiltekt og fræðslu til íbúa. Leiðarljós í Sóknaráætlunar Suðurlands eru að landshlutinn standi fyrir gæðum, hreinleika og umhverfisvitund.

Auk umhverfisverkefnisins voru tvö önnur verkefni sem Alþingi gerði þingsályktanir um. Annað felst í því að landslið bakara ætlar að þróa uppskrift að fullveldisköku sem byggir á gömlum uppskriftum frá upphafi fullveldisins en verður þróuð áfram og færð í nútímalegan búning. Kakan verður til sölu í bakaríum landsins í kringum 1. desember að ári. Hrafnista stendur fyrir hinu þátttökuverkefninu, Fullveldisbörnin – aldarafmæli, sem felur í sér að næsta sumar býður Hrafnista öllum fullveldisbörnunum til veislu í Hrafnistu í Reykjavík. Þar verður fullveldiskakan forsýnd og smökkuð og fá fullveldisbörnin tækifæri til að koma með álit og ábendingar um þróun hennar.