3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Mmm-kvöld í Listasafninu í Hveragerði í kvöld

Mmm-kvöld í Listasafninu í Hveragerði í kvöld

0
Mmm-kvöld í Listasafninu í Hveragerði í kvöld
Listasafn Árnesinga í Hveragerði.

Árleg jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga verður haldin í Listasafninu í kvöld föstudaginn 1. desember kl. 20. Þá munu rithöfundarnir Guðmundur S. Brynjólfsson, Kristín Steinsdóttir, Þórarin Leifsson, Hildur Hákonardóttir og Þorvaldur Kristinsson lesa úr nýútkomnum bókum. Sönghópurinn Lóurnar flytja jólalög raddað án undirleiks, brugðið verður á leik með Helgu Jóhannesdóttur í tengslum við bók hennar Litagleði og í safninu er myndlistarsýningin Verulegar, Brynhildur Þorgeirsdóttir og Guðrún Tryggvadóttir til sýnis.

Tímagarðurinn eftir Guðmund S. Brynjólfsson er saga af leit. Dregin er upp sýn á reynsluheim íslenskra karlmanna og heimsborgarinn og róninn koma líka við sögu.
Ekki vera sár eftir Kristínu Steinsdóttur er uppgjör konu á krossgötum. Með eftirsjá hugsar hún um árin sem liðu hjá og tækifærin sem hún greip ekki – en bíða ný tækifæri handan við hornið?
Kaldakol eftir Þórarinn Leifsson, dregur upp fjarstæðukennda atburðarás sem við nánari athugun á sér þó ýmsar samsvaranir við samtímann. Fjárfestingarfélagið Kaldakol undirbýr stærstu Íslandskynningu sína þegar jarðhræringar verða og almannavarnir undirbúa rýmingu landsins.
Walden eða Lífið í skóginum eftir H.D. Thoreau í þýðingu Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur með formála eftir Gyrði Elíasson hefur veitt mönnum innblástur og verið uppspretta nýrra hugmynda allt frá því bókin kom fyrst út árið 1854.
Helgi. Minningar Helga Tómassonar ballettdansara, sem rituð er af Þorvaldi Kristinssyni, er heillandi saga um sársauka og gleði, fórnir og sigra manns sem náð hefur lengra í list sinni en flestir aðrir Íslendingar.
Litagleði eftir Helgu Jóhannesdóttur, fjallar í máli, myndum og mörgum litum um hið flókna fyrirbæri sem litafræðin er. Hún er gagn og gaman, fræðsla og leikur, hönnuð með því markmiði að gagnast öllum þeim sem vilja efla litaskyn sitt,
Sönghópurinn Lóurnar er skipaður sex sunnlenskum söngkonum af svæðinu Selfoss-Hveragerði-Stokkseyri sem allar eru menntaðar í tónlist. Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld er ein þeirra og hún hefur útsett lögin fyrir sönghópinn sem mun á þessu aðventukvöldi í listasafninu flytja nokkur jólalög án undirleiks.
Verulegar – Brynhildur Þorgeirsdóttir og Guðrún Tryggvadóttir er myndlistarsýning þar sem sjá má skúlptúra eftir Brynhildi og málverk eftir Guðrúnu og við sögu koma verur og víddir.

Allir eru velkomnir á þessa aðventu- og fullveldishátíð sem virkjar skilningarvitin sjón, heyrn, snertingu, lykt og bragð. Dagskráin er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands. Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.