Reynir snappari er einn af mörgum sem hefur slegið í gegn á „snappinu“ en það er ein tegund samfélagsmiðla sem nýtur mikilla vinsælda hjá fólki í dag.
Hver er Reynir snappari?
Ég heiti Reynir Bergmann Reynisson og er 37 ára. Kem úr Reykjavík. Flutti á Selfoss 2011 og bý þar ásamt konu og tveimur börnum. Vinn hjá Jáverki og er snappari.
Hvernig byrjaðir þú á þessu?
Ég byrjaði bara að snappa sjálfur, var að horfa á aðra og hafði gaman af. Svo var bara mikil pressa frá fullt af fólki að ég færi í þetta á fullu. Ég á mjög auðvelt með að láta taka eftir mér og að ná í fylgjendur. Ég er svona sprellari og geri hluti sem fólk gerir yfirleitt ekki. Ástæðan fyrir því að ég hef náð þessum árangri er að ég segi kannski hluti sem aðrir vilja en þora ekki að segja.
Hvað ertu með marga fylgjendur?
Á daglegu róli eru alltaf 4.000 til 4.400 sem fylgjast með mér. Svo fer ég upp í 7–8.000 ef ég geri eitthvað gott. Við erum t.d. að fara að taka einn stóran snappara, sem kallar sig Enski boltinn, en hann tapaði veðmáli, og láta húðflúra hann. Hann veit ekkert hvað og hvar. Þá koma fleiri stórir snapparar og verða með í því.
Fólkið sem fylgir mér er af öllu landinu en ég er með gríðarlega marga hér af Suðurlandi. Það er líka hellingur úr Reykjavík, í útlöndum, Akureyri, Ísafirði o.fl.
Á hvaða aldri er þetta fólk?
Ég hugsa að þetta fólk sé aðallega á aldrinum sextán til þrítugs. Ég tek það reglulega fram að snappið mitt sé svona sextán ára plús. Ég vil hafa það svolítið svoleiðis. Ég get samt ekki fylgst með hverjir koma inn. Það dælast inn tugir á dag. Dóttir mín sem er 11 ára segir mér að krakkar í Sunnulækjarskóla séu með mig. Mér er illa við það en get ekkert stoppað það eða fylgst með því.
Eru einhver skilaboð í snappinu hjá þér eða er þetta mest djók?
Ég sýni bara hvað við erum að gera heima hjá mér, en svo hef ég tekið að mér eina og eina auglýsingu. Ég geri frekar lítið af því. Ég geri það bara ef það gagnast mér sjálfum. Ég nenni t.d. ekki að auglýsa nærbuxur.
Eru snapparar að hafa eitthvað út úr þessu peningalega?
Já, já, ég hef verið að taka að mér smá verkefni og haft smá pening og hluti í staðinn. Þá tek ég það fram á snappinu að þetta sé auglýsing. Ég nenni ekki að fara „full force“ í auglýsingar. Fólk nennir ekki að horfa á það endalaust.
Hvernig hefur þetta snapp verið að þróast hér á landi? Nú ert þú bara einn af mörgum?
Þetta er mjög vinsælt og er hálfgerð bylting. Þetta er þannig samfélagsmiðill að þú ert í svolítilli nánd við einstaklinginn. Þetta er ekki eins og á facebook þar sem allt er á skrifuðu máli. Á snappinu sérðu svolítið heim til mín. Þú sérð alveg inn í stofu, konuna mína og börnin. Snappið eru 10 sekúndna skot og það er hægt að taka fimm í einu. Ég hef verið að fíflast í fólki hér á Suðurlandi og taka mynd af því í laumi og svo sjá þau það á snappinu. Ég hef samt aldrei lent í veseni út af þessu.
Ég mæli með því að fólk addi mér snappinu og fylgist með fjörinu. Accountinn minn heitir reynir1980. Ég mæli með að fólk komi í heimsókn og kynnist mér.