Þann 4. desember nk. verða 100 ár liðin frá því, að Guðlaugur Pálsson kaupmaður hóf verslunarrekstur á Eyrarbakka.
Guðlaugur rak verslun sína í 76 ár – frá desember 1917 og fram í desember 1993, þegar hann lést tæplega 98 ára að aldri. Fyrstu tvö árin var verslunin staðsett í Kirkjuhúsi, en árið 1919 keypti Guðlaugur íbúðarhúsið Sjónarhól og breytti því í verslun og þar stóð hann síðan vaktina á sama gólfinu til dauðadags eða í 74 ár.
Verslunarrekstur Guðlaugs var nær einstakur á landsvísu og jafnvel þó víðar væri leitað. Í fyrsta lagi vegna þess hve langt tímabil hann spannaði og í öðru lagi vegna þess háa aldurs sem Guðlaugur náði.
Fyrsti viðskiptavinur Guðlaugs 4. desember 1917 var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni, sóknarprestur Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Sr. Gísli keypti eina litla vasabók á 22 aura. Heildarsalan þennan fyrsta verslunardag Guðlaugs Pálssonar var 28 kr.
Húsið Sjónarhóll hefur verið gert upp í þeirri mynd sem það var árið 1919 og í dag er þar rekin lítil ferðamannaverslun yfir sumarmánuðina undir heitinu Laugabúð, en undir því heiti gekk verslun Guðlaugs dags daglega.
Í tilefni þessara tímamóta verður Laugabúð á Eyrarbakka opin mánudaginn 4. desember nk. frá kl. 15 til 21. Klukkan 16, 18 og 20 verður saga Verslunar Guðlaugs Pálssonar rakin í máli og myndum í búðinni.