-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Þegar saga gerist í öðrum heimi verður alltaf til ný saga

Þegar saga gerist í öðrum heimi verður alltaf til ný saga

0
Þegar saga gerist í öðrum heimi verður alltaf til ný saga
Eyþór Heimisson.

Lestrarhestur Dagskrárinnar, Eyþór Heimisson, er 23 ára gamall, elsti sonur Heimis Eyvindarsonar og Sólrúnar Auðar Katarínusardóttur. Hann útskrifaðist sem iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands síðastliðið í vor og er nýlega fluttur aftur til Hveragerðis eftir að hafa búið á stúdentagörðum síðustu ár.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er að lesa White Night sem er níunda bókin í Dresden files seríunni. Hún fjallar um Harry Dresden sem er galdramaður. Ég heyrði fyrstu bókinni lýst sem Harry Potter með meiri húmor og eldri aðalpersónu. Harry Potter er ein af mínum uppáhaldsseríum og vakti Dresden files því strax athygli mína. Ég sé ekki eftir því að hafa byrjað að lesa þessar bækur.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég les flestar bækur á KINDLE eða lesbretti sem ég fékk að gjöf árið 2011. Ég les aðallega þegar ég ferðast á milli staða í strætóum eða hlusta á hljóðbók í bílferðum. Ég er þekktur fyrir að eyða öllum mínum flugum í það að lesa og klára fjöldann allan af bókum í ferðalögum. Þar kemur sér vel að hafa lesbrettið því það skapar pláss fyrir fötin í töskunni. Annars hef ég það fyrir reglu að lesa rétt fyrir svefninn. Mér finnst gott að hlusta á tónlist meðan ég les.

Áttu þér áhugaverða lestrarminningu?
Það fyrsta sem kemur í hugann er bókasafnið á Selfossi sem ég fór á að minnsta kosti tvisvar í viku frá tíu ára aldri og þangað til að ég flutti til Hveragerðis. Starfsmenn bókasafnsins voru farnir að þekkja kennitöluna mína betur en ég. Mikilvægt stopp fyrir allar fjölskylduferðir í sumarbústað var á bókasafninu til að birgja sig upp.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég er hrifnastur af fantasíum. Ég hef alltaf haft áhuga á sögu en það er takmarkað magn af sögu í þessum heimi. Þegar sagan er í öðrum heimi verður alltaf til ný saga og heimarnir geta verið mjög heillandi. Einnig heilla pælingarnar í vísindaskáldsskap en þær bókmenntir mættu vera metnaðarfyllri í sögugerð og persónusköpun.

Áttu þér uppáhalds barnabók?
Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren. Pabbi las hana fyrir mig fyrir mörgum árum og ég var mjög hrifinn af heiminum. Mér fannst pabbi ekki lesa bókina nógu hratt þannig að þegar hann hætti á spennandi stað og lítið var eftir af sögunni tók ég mig til og kláraði hana.

Er til bók sem hefur haft sérstaklega mikil áhrif á þig?
Ég las Hringadróttinssögu fyrst þegar ég var tíu ára. Eftir að hafa lesið söguna í heild langaði mig að lesa allt annað eftir Tolkien. Ég var svekktur þegar ég komst að því að hann skrifaði aðeins tvær aðrar bækur. Ég held að ég hafi lesið bækurnar hans árlega fimm ár í röð fyrst á íslensku og síðan á ensku. Ef það væri ekki vegna Hringadróttinssögu er ég ekki viss um að ég væri jafn hrifinn af fantasíum og ég er í dag.