Föstudaginn 13. október síðastliðinn opnaði Dýraríkið nýja verslun að Eyravegi 38 á Selfossi. Eigendur fyrirtækisins eru Þórarinn Þór, Axel Ingi Viðarsson og Einar Valur Einarsson. Verslunin á Selfossi er ein af þremur verslunum en þær eru þó tæknilega fjórar. Fjórða verslunin opnar á Internetinu í þessum mánuði. Verður það ein fullkomnasta netverslun hér á landi. Inn á þeirri síðu verða um 4.000 vörur sem verða sendar um allt land og frítt í nágrenni verslananna.
„Við seljum allar vörur fyrir öll gæludýr. Núna erum við að taka inn dúfufóður og fleira fyrir dúfur,“ segir Axel Ingi.
Ragnar Sigurjónsson, verslunarstjóri bætir við: „Við erum með alla gæludýraþjónustu sem um getur. Það er alveg sama hvort það eru fuglar eða fiskar eða önnur gæludýr. Það er bara allt mögulegt. Við höfum verið að selja hænur, dúfur og alls konar fugla. Einnig hamstra og kanínur. Við höfum fundið fyrir því að það er gríðarlega mikil ánægja með að við skulum vera komin hér á svæðið með verslunina. Fólk er ánægt með að þurfa ekki að „fara yfir heiðina“ eins og ein kona sagði við mig. Hún var að koma frá Flúðum. Við erum núna að bæta við fiskum og fiskabúrum. Við ætlum að vera með aðeins meira úrval og betra aðgengi. Svo getum við verið með fleiri dýr þar líka.“
„Dýraríkið er lágvöruverðsverslun. Þegar við eignuðumst fyrirtækið lækkuðum við verðin um 40%. Það gerir það að verkum að allir geta keypt hjá okkur gæðavörur á góðu verði. Við erum nær eingöngu með gæðavörur sem eru framleiddar í Evrópu. Það er bara örlítið prósent af okkar vörum framleiddar í Kína,“ segir Axel Ingi.