-0.5 C
Selfoss

Nýtt knatthús og skipt um gólf í Iðu

Vinsælast

Í fjárhagsáætlun Árborgar fyrir árið 2018 sem lögð var fram til fyrstu umræðu í bæjarstjórn 15. nóvember sl. er gert er ráð fyrir framkvæmdum við íþróttamannvirki fyrir um 275,5 millj. kr. Er þar gert ráð fyrir nýju knatthúsi, endurnýjun á gervigrasi á Vallaskólavelli og að skipt verði um gólfefni í íþróttahúsinu Iðu í samstarfi við Fasteignir ríkisins.

Í greinargerð með fjárhagsáætluninni kemur fram að gervigrasið við Vallaskóla sé ónýtt að heita má, auk þess sem nýtt efni verði sett á völlinn sem ekki krefst þess að notað verði gúmmíkurl. Áætlað er að skipta út gervigrasi á öðrum völlum í framhaldinu.

Þar segir einnig að tilkoma nýs knatthúss með aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir leiði til þess að verulega rýmki um æfingatíma í íþróttahúsum í ört vaxandi samfélagi, enda munu æfingar hinnar fjölmennu knattspyrnudeildar færast yfir í nýja húsið þegar það verður tilbúið og að æfingar frjálsíþróttadeildar flytjist einnig þangað, a.m.k. að hluta. Þá muni akstur með yngri börn í önnur bæjarfélög vegna knattspyrnuæfinga detta upp fyrir þegar húsið verður komið í notkun. Að auki munu íbúar sveitarfélagsins sem vilja ganga sér til heilsubótar geta nýtt inniaðstöðu á dögum sem ekki viðrar til göngu undir berum himni.

Frístundastyrkir hækka í 30.000 kr.
Meðal annarra breytinga í fjárhagsáætluninni frá fyrra ári má nefna að í áætluninni er gert ráð fyrir að frístundastyrkir fyrir 5–17 ára börn og ungmenni verði hækkaðir úr 15.000 kr. á ári í 30.000 kr. á ári. Þá er gert ráð fyrir að haustið 2018 verði gerð tilraun til að bjóða upp á akstur í frístundir eftir skólatíma, þ.e. frá skólum í tómstundir fyrir börn í yngstu árgöngum grunnskóla. Er með þessum breytingum komið til móts við foreldra barna hvað varðar kostnað við íþrótta- og tómstundastarf og yngstu grunnskólabörnunum gert auðveldara að komast á milli staða til tómstundaiðkunar.

Nýjar fréttir