3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Fimm stútar teknir í vikunni

Fimm stútar teknir í vikunni

0
Fimm stútar teknir í vikunni

Fimm ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis í liðinni viku. Um er að ræða fjögur mál en í einu þeirra voru tveir aðilar handteknir eftir að hafa ekið bifreið sinni út af vegi við Þingborg í Fóa og fest hana þar. Þeir voru báðir handteknir á vettvangi og yfirheyrðir eftir að hafa sofið úr sér vímuna. Einn er grunaður um að hafa ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna en akstur hans var stöðvaður við Hvolsvöll.

Þrír ökumenn sem voru að aka bifreið voru stöðvaðir og sviptir ökuréttindum.

Sjö aðilar voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. Aðstæður til aksturs hafa ekki alltaf verið góðar og tvö alvarleg umferðarslys urðu á Suðurlandsvegi í liðinni vikur, annað við Jökulsá á Sólheimasandi þar sem tvær bifreiðar sem ekið var úr gagnstæðum áttum rákust á og hitt skammt austan aflegjarans að Dyrhólaey en þar rákust saman jepplingur og snjóruðningsbíll. Um bæði þessi slys hefur verið fjallað í tilkynningum frá lögreglunni. Þriðja umferðarslysið varð rétt austan við Skál í Eldhrauni en þar rákust saman jepplingur og sendibíll. Meiðsl í því óhappi eru talin minniháttar. Samtals eru skráð 21 umferðaróhöpp í umdæminu í vikunni og rekja má flest þeirra til hálku og þess að akstri er ekki hagað í samræmi við aðstæður á vegi.

Þá slasaðist ferðamaður sem hugðist renna sér fótskriðu niður eftir brúarbita við minnismerki skammt frá Skaftafelli. Ekki vildi betur til en svo að hann ökklabrotnaði og var fluttur með þyrlu af vettvangi.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.