Miklar framkvæmdir standa yfir á Hvolsvelli um þessar mundir við endurnýjun á húsnæðinu að Austurvegi 4 en þar voru í eina tíð höfuðstöðvar Kaupfélags Rangæinga. Fyrir nokkrum árum keypti sveitarfélagið byggingarnar af Reitum ehf. sem höfðu jafnframt yfirráðarétt yfir lóðum í miðbæ Hvolsvallar. Var þar um þriggja hektara svæði að ræða, sem sveitarfélagið hefur nú umráðarétt yfir eins og nær öllu landi þéttbýlisins. Nýverið var skrifað undir 10 ára leigusamning við Festi, eignaraðila Krónunnar, þar sem Festi skuldbindur sig til að reka lágvöruverðsverslun á Hvolsvelli.
Í vor verður verslunarhúsnæðinu við Austurveg breytt úr verslunarmynstri Kjarvals í Krónuverslun. Einnig er verið að byggja u.þ.b. 200 m² viðbyggingu þannig að húsið henti undir nýtt verslunarmynstur. Þetta er kærkomin breyting á verslunarháttum í Rangárþingi og víðar.