-3.4 C
Selfoss

SS og Mímir fasteignir undirrita samning um byggingu átta íbúða á Hvolsvelli

Vinsælast

Miðvikudagin, 8. nóvember sl. undirrituðu fulltrúar Sláturfélags Suðurlands og Mímis fasteigna ehf. verksamning um byggingu fyrsta áfanga af þrem í byggingu alls 24 íbúða á Hvolsvelli til útleigu til starfsfólks SS. Þessi áfangi felst í byggingu raðhúss með 8 íbúðum, sem hver um sig er um 50 fermetrar að stærð með baðherbergi, einu svefnhergi, eldhúskrók, geymslu og setustofu, auk útigeymslu. Arkitektahönnun er unnin af Teiknistofu arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum, en Mímir fasteignafélag ehf. annast alla aðra hönnun, smíði og frágang íbúðanna innan- og utanhúss ásamt lóðafrágangi. Verkfræðistofan Ferill hefur umsjón og eftirlit með verkinu af hálfu SS.

Fyrsta skóflustungan var tekin laugardaginn 11. nóvember sl. og var þá grafið fyrir húsinu, sem mun rísa í Gunnarsgerði 2 á Hvolsvelli, á lóð sem Rangárþing Eystra úthlutaði SS í nýrri götu. Lögð er áhersla á einfaldleika og notagildi og snyrtilegan frágang innan- og utanhúss þannig að húsin falli vel að umhverfi sínu og séu samfélagi og íbúum til sóma.

SS fagnar 110 ára afmæli á árinu, er stærsti atvinnurekandi á Suðurlandi og skapar með starfsemi sinni um 400 ársverk á svæðinu. Sláturhús og útflutningsvinnsla er á Selfossi þar sem vinna um 25 manns allt árið og um 160 í sauðfjársláturtíð. Á Hellu og Ásmundarstöðum er dótturfélagið Reykjagarður með um 80 manns í vinnu og á Hvolsvelli rekur SS eina stærstu kjötvinnslu landsins þar sem vinna að jafnaði 160–170 manns. Þensla er á húsnæðismarkaði og gildir það um Hvolsvöll eins og mörg önnur landsvæði. Það eru hagmunir SS að geta tryggt starfsfólki sem þess óskar aðgang að vönduðu leiguhúsnæði til langs tíma.

Mímir fasteignir ehf. er stofnað í kringum þá hugmyndafræði að geta byggt upp ódýrar íbúðir, sem byggja á forsteyptum einingum og tréeiningum þar sem byggingatími er skammur miðað við hefðbundnar aðferðir og aðstæður hérlendis. Auk byggingarinnar á Hvolsvelli vinnur Mímir að byggingu 36 íbúða á Akureyri ásamt heimamönnum. Mímir hefur samið við heimamenn á Hvolsvelli um undirverktöku. Gröfuþjónusta Þormars sér um jarðvinnu og Rafmagnsverkstæði Ragnars annast raflagnir. Þá munu Pípulagnir Helga á Selfossi sjá um lagnavinnu.

Rangárþing Eystra hefur stutt uppbyggingu SS á svæðinu dyggilega. Miklir og gagnkvæmir hagsmunir eru í atvinnustarfsemi SS og viðgangi sveitarfélagsins.

Nýjar fréttir