-0.7 C
Selfoss
Home Fréttir Húsnæðisvandi nemenda FSu og ungmenna á svæðinu

Húsnæðisvandi nemenda FSu og ungmenna á svæðinu

0
Húsnæðisvandi nemenda FSu og ungmenna á svæðinu
Fjölbrautaskóli Suðurlands. Ljósmynd: ÖG.

Ungmennaráð Árborgar lýsir yfir miklum áhyggjum yfir leigumarkaðinum hér í Árborg og þá sérstaklega úrræðum fyrir ungt fólk. Lítið sem ekkert er í boði af leiguhúsnæði í sveitarfélaginu. Það getur bæði leitt til þess að ungt fólk flyst af svæðinu eða búi hjá foreldrum langt fram eftir aldri.

Eftir töluverða rannsóknarvinnu ungmennaráðsins komumst við að því að af þessum örfáu íbúðum sem voru til leigu voru nær engar stúdíóíbúðir eða litlar íbúðir heldur voru þær allar í stærri kantinum. Það hentar ungu fólki afar illa þar sem fæstir hafa fjárhag til þess að leigja stórar íbúðir.

Airbnb hefur vaxið gríðarlega í vinsældum síðustu ár. Fyrir þá sem vita ekki hvað það er þá er það vefsíða þar sem hægt er að leigja út húsnæði af öllu tagi í stuttan tíma. Hámark útleigutíma á íbúð eru 90 nætur skattfrjálst. Leyfið er sótt hjá sýslumanninum í Reykjavík. Hins vegar er eftirlit sýslumannsins með þessari reglu ekki mikið og sveitarfélög hafa lítið sem ekkert um það að segja. Þegar leitað er á síðunni að íbúðum í Árborg koma upp í kringum 100 íbúðir til leigu. Þetta er gríðarlegur fjöldi og flestar íbúðirnar og herbergin gætu verið á leigumarkaðnum í stað Airbnb.

Þegar skoðaðir eru Facebook-hópar þar sem auglýst er eftir íbúðum í Árborg er fátt um svör fyrir leiguleitanda og þarf hann að leita vikum ef ekki mánuðum saman. Sveitarfélagið Árborg hefur samt gert sér grein fyrir þessum vanda og er verið að byggja fjölmargar íbúðir og eru blokkaríbúðir þar á meðal á dagskrá.

Árið 2016 lokaði heimavist Fjölbrautaskóla Suðurlands en hún gat rúmað allt að 60 nemendur. Síðan þá hefur því leiguvandinn stækkað enn frekar. Það er óboðlegt að nemendur hafi þurft að hætta eða ekki getað sótt nám við FSu einfaldlega vegna þess að hvergi er staður fyrir þá til að búa á.

Heimavistin var gríðarlega mikilvæg fyrir ungmenni á Suðurlandi, þá sérstaklega fyrir þá sem koma lengra að. Einnig var hún nauðsynleg fyrir þá sem skráðir eru í akademíur FSu og þá sem vilja stunda aðrar tómstundir. Oft eru samgöngur í samræmi við skólatíma en ekki aðrar tómstundir og þurfa því nemendur oft að fórna tómstundum fyrir heimferð. Einnig bauð heimavistin upp á aukna félagsþátttöku nemenda.

Þegar samningur milli eiganda heimavistarinnar og skólans rann út, var eftirspurnin ekki talin nægilega mikil. Þeirri spurningu hafði verið kastað fram hvort að húsnæði heimavistarinnar væri orðið of stórt, vegna styttingar framhaldsskólans. Ef byggð verður ný heimavist þarf húsnæðið ekki að vera jafn stórt og það gamla. Nauðsynlegt er að verkefnið verði samstarf ríkis og sveitarfélaga á Suðurlandi eins og gert var þegar verknámshúsið Hamar og íþróttahúsið Iða var byggt. Við biðlum því til þingmanna svæðisins að pressa á nýja ríkistjórn að koma með fjármagn svo öll ungmenni á Suðurlandi geti sótt Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Fyrir hönd Ungmennaráðs Árborgar,

Guðmunda Bergsdóttir og Sveinn Ægir Birgisson.