3.9 C
Selfoss

Fjölnota pokar „ekki kaupa rusl“

Vinsælast

„Ekki kaupa rusl!“ er nafn á umhverfisverkefni sem Kvenfélags Grímsneshrepps hefur verið að er að vinna að síðastliðið ár. Markmiðið með verkefninu er að auka vitundarvakningu hjá íbúum Grímsnes- og Grafninghrepps um að sporna við því mikla magni af óþarfa rusli sem fellur til frá heimilum, vinnustöðum og stofnunum.

Tildrög verkefnisins voru að á vorfundi félagsins í fyrra fengum við fæðslufyrirlestur um rusl, hversu mikið félli til, hvernig ruslamagn tengist efnahagssveiflum í samfélaginu, hvernig það er flokkað og hvar er hægt að gera betur, svo að dæmi séu nefnd. Það sem stóð upp úr fyrirlestrinum var þessi setning „Ekki kaupa rusl“ þ.e. ekki kaupa of stórar pakkningar þar sem innihaldið verður aldrei klárað og minni einingar eru til, ekki kaupa hluti, föt, mat og annað sem ekki verður notað og fer þar af leiðandi beint í ruslið. Einnig kom fram það gífurlega magn af matvælum og lífrænum úrgangi sem fer beint í ruslatunnuna okkar sem hægt væri að koma í veg fyrir með vandaðri innkaupum, flokka betur og endurnýta eins og með moltugerð eða hreinlega fá sér hænur sem svo framleiða egg fyrir þig í staðinn.

Í framhaldi áskotnaðist kvenfélaginu mikið magn af efni í allskyns litum og mynstri auk gömlu dúkanna úr félagsheimilinu. Út frá því fórum við að huga að hvernig þetta efni myndi nýtast best og kom sú hugmynd upp að sauma taupoka úr þessu og færa íbúum sveitafélagsins þá að gjöf og þannig hvetja þá til að lágmarka plastpokanotkun við innkaup sem dæmi.

Konur byrjuðu á að lita efni í skemmtilegum litun, sníða til pokana og sauma þá. Nú í maí buðum við upp á tauþrykkinámskeið fyrir kvenfélagskonur auk annara kvenna sem búa í sveitinni. Þá þekkingu nýttum við svo í að þrykkja merkingar á dúkana. Að lokum nýttum við þann skemmtilega dag „Borg í sveit„ til að dreifa fyrsta holli af pokum á heimilin í Grímsnes- og Grafningshreppi og afhenda íbúum pokana og hvetja þá um leið að nota fjölnota. Í október var svo lokahnikkurinn á verkefninu þegar við dreifðum inn á heimili á Sólheimum sem ekki náðist í vor.

Það var ekki síst gaman að heimsækja heimili í sveitinni þar sem tekið var vel á móti okkur og gaman að heyra hvað margir notast nú þegar við fjölnota poka. Takk fyrir góðar móttökur, kaupum ekki rusl og notum fjölnota.

Kærar kveðjur Kvenfélags Grímsneshrepps

Nýjar fréttir