-6.3 C
Selfoss

Miklar framkvæmdir í Vík

Vinsælast

Miklar framkvæmdir í Vík

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Vík í Mýrdal undanfarin misseri og óhætt að segja að samfélagið iði af lífi um þessar mundir. Aukinn fjöldi ferðamanna hefur kallað á ýmsa uppbyggingu innviða m.a. til að geta veitt þá þjónustu sem nauðsynleg er.

Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps var spurður út í helstu framkvæmdir í Vík um þessar mundir.

„Það er eins og sagt hefur verið frá nýbúið að opna um 4.000 m2 verslunarmiðstöð hérna í Vík. Í því húsi eru ný matvöruverslun, KR supermarket, gríðarlega stækkuð verslun Icewear með aukið og fjölbreyttara vöruúrval og nýr veitingarstaður, Ice cave. Á næstunni verður þar líka opnað bakarí og e.t.v fleira. Þetta hús gjörbreytir allri aðstöðu fyrir ferðamenn hér í Vík með góðri aðstöðu snyrtinga og allrar nauðsynlegrar þjónustu.

Þá er verið er að byggja um tuttugu íbúðir í Vík eins og er. Á næstu vikum áformar svo fyrirtækið Hrafnshóll ehf. að hefjast handa við byggingu á níu til fimmtán raðhúsaíbúðum sem verða seldar á almennum markaði.

Mýrdalshreppur er að byggja fjórar íbúðir í almenna leiguíbúðakerfinu og er stefnt að því að þær fyrstu verði tilbúnar í næsta mánuði. Þá eru einstaklingar að byggja nokkrar íbúðir. Síðan eru þjónustufyrirtæki í ferðaþjónustunni að byggja tólf íbúðir sem ætlaðar eru fyrir starfsfólk,“ segir Ásgeir. „Hér er sem kunnugt er búinn að vera mikill skortur á íbúðarhúsnæði, enda hefur íbúum fjöldag hér í sveitarfélaginu um 25% á síðustu þremur árum.“

Að sögn Ásgeirs er Rarik að byggja nýja spennistöð þar sem öll þessi uppbygging kallar á meira rafmagn. Sú bygging er langt kominn. Þá er ristið heilmikið hesthús, sem er fyrsti hlutinn af áformum um uppbyggingu þjónustumiðstöðvar íslenska hestsins í Vík, en hestaleiga hefur verið mjög vaxandi á síðustu misserum.

Verið er að byggja tvö hús á tjaldstæðinu í Vík, annað sem í verða fjórar íbúðir ætlaðar til útleigu fyrir ferðamenn og hitt sem verður ný og stórbætt aðstaða gesta á tjaldstæðinu. Ásgeir segir að eins og ferðamannastraumurinn sé orðinn nú þurfi tjaldstæðið að vera opið nánast allt árið. Þá er búið að koma upp uppi í Víkurgili svokölluðum zip-line brautum sem ætlaðar eru sem viðbót í afþreyingarmöguleika ferðamanna í Vík.

Aðspurður um framkvæmdir er tengjast sveitarfélaginu segir Ásgeir að nú sé unnið af krafti að því að byggja nýjan sjóvarnargarð austar á sandinum til varnar iðnaðarsvæðinu, og er sá garður strax farinn að skila sínu hlutverki. Vegagerðin hefur yfirumsjón með þeirri framkvæmd, en verktaki í því verki er Suðurverk ehf.

„Allri þessari uppbyggingu fylgir svo mikil gatnagerð og margskonar lagnavinna sem eru ansi kostnaðarsamar framkvæmdir fyrir sveitarfélagið. Á næsta ári er svo nauðsynlegt að ráðast í endurbætur á holræsakerfi sveitarfélagsins til að geta betur þjónað allri þessari viðbót í sveitarfélaginu,“ segir Ásgeir.

Nú í haust verður svo hafist handa við byggingu á nýju hóteli með 76 herbergjum og tilheyrandi íbúðum fyrir starfsfólk. Það er fyrirtækið Atlantis fasteignir ehf. sem byggir það hótel, en þeir reka einnig hótel í Mývatnssveit. Á næsta ári mun svo fyrirtæki Lava hótel Vík ehf. fara af stað með hótelbyggingu, en ekki liggja fyrir endanlegar teikningar af því hóteli.

Nýjar fréttir