-11.4 C
Selfoss
Home Fréttir Skálholt – Biskupsstóll og bújörð í þúsund ár

Skálholt – Biskupsstóll og bújörð í þúsund ár

0
Skálholt – Biskupsstóll og bújörð í þúsund ár

Nú stendur yfir vinna við að velja nýjan vígslubiskup í Skálholt. Ég er annar tveggja sem valið stendur um í lokaáfanga þess ferils.

Ég hef haft tækifæri til að kynnast þessum merka stað og því starfi sem þar er unnið um nokkuð langa hríð. Ég var um átján ára skeið prestur í Hruna en það er eins og Sunnlendingar þekkja, nánast næsti bær við Skálholt. Sagan er sannarlega ríkuleg og mikilvæg í samhengi trúar og menningar í okkar góða landi. Um leið er það ljóst að enginn lifir lengi á fornri frægð. Við þurfum því að leggja niður fyrir okkur hvers vegna það skiptir máli að Skálholt viðhaldist sem lifandi staður.

Í mínum huga eru fyrir því þrjár meginástæður:

Í fyrsta lagi hið sögulega samhengi, staðurinn er fjölsóttur af ferðafólki, innlendu sem erlendu, og þar með gefst kærkomið tækifæri til þess að fræða fólk um sögu staðarins og kristninnar í landinu og kristnina yfirleitt. Nú fjölgar óðum í þeim hópi sem lítið veit um þessi mál.

Í öðru lagi er staðurinn í huga margra helgur staður, hefur helgast af því bænalífi sem þar hefur verið stundað um aldir og hinni fögru dómkirkju sem þar stendur nú. Fjölmargir leita þangað á trúarlegum forsendum og næra þar sitt trúarlíf með þátttöku í helgihaldi og kyrrðarstundum af ýmsu tagi.

Í þriðja lagi tilheyrir Skálholti gjöfult land, þar hefur verið stundaður búskapur fram á þennan dag. Ein mikilvægustu málefni nútímans eru umhverfismál. Þau mál eru nú um stundir mjög á dagskrá innan kirkjunnar, ekki aðeins hér á landi heldur um heim allan. Þessa sáum við glögg merki á ráðstefnu sem haldin var nýlega hér á landi á vegum Alkirkjuráðsins. Það er því kjörið tækifæri að sýna í verki vilja og stefnu kirkjunnar í þessum málum með því að nytjar og umgengni við landið í Skálholti einkennist af sjálfbærni og virðingu fyrir náttúrunni. Kirkjan hefur frá upphafi notast við tákn til að koma boðskap á framfæri og í mínum huga getur Skálholt orðið mikilvægt tákn á þessu sviði.

Vissulega er vígslubiskupi ætluð fleiri verkefni en þau að fara með forystu í málefnum Skálholts. Þar er mest um vert að líta til þeirra verkefna sem starfsreglur geta um og vísa til tengsla við söfnuði umdæmisins. Honum ber að vera í lifandi tengslum við presta og sóknir bæði með formlegum hætti í gegnum vísitasíur en einnig með því að fylgjast með því sem gert er, tala við fólk og vera til staðar ef eitthvað bregður út af. Hann er því fulltrúi kirkjustjórnarinnar sem leitast við að hvetja og styðja alla sem leggja kirkjustarfinu lið. Það er mikils um vert að láta fólk finna að það er eftir því tekið og metið að verðleikum sem gert er. Oft af litlum efnum og með fórnfúsu starfi. Hann þarf að leitast við að vekja þá tilfinningu innan kirkjunnar að við séum öll í sama liði og leitumst við styðja og styrkja hvert annað til sjávar og sveita, í bæjum og borgum. Verkefnið er brýnt, sú endurnýjun hugarfarsins sem trúin á Jesú Krist kallar eftir er einmitt grunnur að nýjum leiðum, nýjum lífstíl sem lífið á jörðinni þarf á að halda.

Í því sem kalla má þjóðsöng Árnesinga og flestir þar um slóðir kunna utanbókar er mikilvægi Skálholts áréttað.

Þú Árnesþing, ég elska nafnið þitt.
Þar upp til fjalla er helgisetrið mitt,
er morgungeislans mildi fyrst ég naut
við móðurskaut.

Í hinum gamla, göfga minjasal
þú geymir Skálholt, Þingvöll, Haukadal.
Því segir Ísland: Sjá, við háborð mitt
er sæti þitt.

Skálholt er demantur á festi dýrgripa landsins, því ber áfram sess við háborð landsins. Ég vil leggja því lið að svo megi verða.

Séra Eiríkur Jóhannsson.