-4.9 C
Selfoss

Tónleikar í Menningarsalnum á Hellu fimmtudaginn 2. nóvember

Vinsælast

Margvíslegt starf fer fram í Menningarsalnum að Dynskálum 8 á Hellu. Húsnæðið var keypt árið 2011 en fyrir átti Oddasókn hinn hluta hússins sem nýttur er fyrir safnaðarheimili. Mikil þörf var fyrir sal sem gæti hýst starf eldri borgara, kórastarf og aðra menningar- og góðgerðarstarfsemi sem starfrækt er í Rangárþingi. Mikil vinna var lögð í að standsetja salinn sem að miklu leyti var unnin í sjálfboðavinnu þeirra aðila sem nýta aðstöðuna fyrir sína starfsemi. Þá má geta þess að Menningarsalnum var færð vegleg gjöf fyrir tveimur árum þegar Karlakór Rangæinga, Kvennakórinn Ljósbrá og Samkór Rangæinga afhentu nýjan flygil sem festir salinn enn frekar í sessi sem tónlistarhús. Sveitarfélögin Rangárþing ytra og Ásahreppur koma að rekstrinum með styrktarsamningi.

Fimmtudaginn 2. nóvember nk. kl. 20:00 verða haldnir tónleikar í Menningarsalnum þar sem fram koma Karlakór Rangæinga, Hringur, kór eldri borgara, Harmonikufélag Rangæinga, Kvennakórinn Ljósbrá, Kirkjukór Odda- og Þykkvabæjarkirkna og nemendur úr Tónlistarskóla Rangæinga.  Einnig koma fram þær Glódís Margrét Guðmundsdóttir píanóleikari og Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzosópran. Kvenfélagið Unnur sér um kaffiveitingar í hléi.

Um árlegan viðburð er að ræða og verður allur ágóði af tónleikunum nýttur til að bæta aðstöðuna í salnum. Fyrir ágóðann hefur m.a. verið byggt svið og flísalögn á eldhús og salernisaðstöðu en núna er stefnt á kaup á nýju gólfefni í salinn.

Verið velkomin á tónleika, fjölbreytt og skemmtileg dagskrá í boði.

F.h. Oddasóknar
Heiðrún Ólafsdóttir

Nýjar fréttir