-0.5 C
Selfoss
Home Fastir liðir Ég hlýt að hafa átt einhverjar „stelpubækur“

Ég hlýt að hafa átt einhverjar „stelpubækur“

0
Ég hlýt að hafa átt einhverjar „stelpubækur“
Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir.

Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er fædd í Guttormshaga í Holtahreppi og ólst þar upp með foreldrum sínum, þremur bræðrum og föðurömmu. Hún tók landspróf í Skógaskóla, fór svo að vinna á Selfossi og hefur búið þar síðastliðin 53 ár þar af 47 ár í sama húsi í Langaneshverfinu fyrir utan Ölfusá. Hún vann í Siggabúð í 7 ár, var þá heimavinnandi í þó nokkur ár en seinasti vinnustaður hennar var Fjölbrautaskóli Suðurlands en þar vann hún í 31 ár sem kaffikona í starfsmannaeldhúsi og einnig í ræstingum. Nú segist Guðrún vera komin í vinnu hjá sjálfri sér og leiðist það ekki.

Hvenær kviknaði áhugi þinn á bókum?
Ég man ekki eftir öðru en að bækur hafi verið sjálfsagður hluti af tilverunni og var lesið fyrir okkur systkinin þangað til við fórum sjálf að lesa. Ég var læs frekar snemma og fannst gaman að lesa en ekki þó fyrr en eftir Gagn og gaman. Ég man eftir Dísu ljósálfi og Alfinni álfakóngi, Grimmsævintýrum og einhverjum sögum eftir H.C. Andersen og ýmsu öðru. Ég þori varla að segja frá því að bókin um Tíu litla negrastráka var til á heimilinu. Við fengum lestrarbækur í skólanum og ég las þær allar strax. Svo var til heilmikið af bókum heima, ritsafn Einars H. Kvaran og Jóns Trausta, Hrakningar á heiðarvegum eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson. Ég las þetta allt gagnrýnislaust.

En hvaða bók ertu að lesa núna?
Núna er ég að ljúka við Í túninu heima eftir Halldór Kiljan. Ég er ekki að lesa þá bók í fyrsta sinn svo það má segja að ég hafi vitað að hverju ég gekk. Ég man ekki hvað vakti áhuga minn á henni á sínum tíma. Kannski var ég þá búin að lesa Innansveitarkróniku, mér fannst hún skemmtileg. Annars átti ég lengi vel í erfiðleikum með að lesa bækur Kiljans. Stafsetningin fannst mér óþægileg en hún venst.

Hvers konar bækur höfða til þín?
Ég les allskonar bækur, skáldsögur, glæpasögur, ævisögur, sögulegar skáldsögur og hvaðeina en helst ekki smásögur og ljóðin kann ég ekki almennilega á ennþá. Mér finnst hálfgert svindl að nefna einhverja höfunda. Ég yrði sennilega fljótari að telja þá upp sem ég nenni ekki að lesa lengur.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég vil helst ljúka við bækur sem ég byrja að lesa. Ég held það hafi aðeins komið fyrir einu sinni til tvisvar að ég gafst upp á bók. Önnur var ævisaga en ég ætla ekki segja hvers. Ég hreinlega man ekki hver hin bókin var. Ég er bara með eina bók í takinu í einu og verð að klára hana áður en ég byrja á næstu.

Áttu þér uppáhalds barnabók?
Ég á enga uppáhalds barnabók en mér fannst Ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton alltaf mjög spennandi en nú er langt síðan ég las þær svo það er eftir að vita hvort þær standast tímans tönn. Bróðir minn átti Nonnabækur og bækurnar um Árna í Hraunkoti og vitanlega las ég þær. Ég hlýt að hafa átt einhverjar „stelpubækur“ en ég man ekkert eftir þeim!

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ef ég gæti nú skrifað. Það er nú það. Ég segi stundum að ég geti ekki einu sinni logið líklega svo það er víst engin hætta á að ég fari að skrifa. Ég held samt að ég myndi skrifa krimma.